Hafnfirskir skólar sameinaðir

Víðistaðaskóli.
Víðistaðaskóli. Hafnarfjörður.is

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti með 11 samhljóða atkvæðum í vikunni að sameina Engidalsskóla og Víðistaðaskóla frá haustinu undir einni yfirstjórn.
 
Þetta er niðurstaðan úr svonefndri tillögu D sem vinnuhópur á vegum fræðsluráðs Hafnarfjarðar lagði til en hann hefur starfað frá því í febrúar. Í vinnuhópnum störfuðu fulltrúar stjórnmálaflokka í bæjarstjórn, fulltrúar foreldra í skóla- og foreldráðum í norðurbænum, starfsfólk Skólaskrifstofu og skólastjórar í leik- og grunnskólum bæjarins í norðurbænum.

Hin eiginlega breyting á skólastarfsemi frá hausti sem snýr að nemendum er að nemendur í Engidalsskóla sem farið hafa í Víðistaðaskóla við lok 7. bekkjar fara nú í skólann við lok 4. bekkjar. Með þessari breytingu er talið að þjónusta við nemendur á miðstigi, eða 5.-7. bekk, aukist og meiri sveigjanleiki fáist í skólastarfið. Það á við um betra aðgengi að íþróttahúsnæði, félagsstarfi og meiri möguleikar á félagslegum samskiptum í fjölbreyttari nemendahópi.
 
Lögð verður áhersla á að allir fastráðnir starfsmenn skólanna tveggja haldi störfum sínum. Rúmist einhverjir ekki innan hins nýja skóla verður þeim boðið upp á sambærilegt starf innan skólakerfisins í Hafnarfirði þótt ekki sé hægt að tryggja öllum stjórnendum sambærilegt starf.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert