Þrjátíu metra hækkun við jökul

Gjóska sem borist hefur með jökulvatninu frá eldgosinu í Eyjafjallajökli hefur hækkað landið við jökulrönd Gígjökuls um 30 metra. Það áætlar Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur og prófessor við Háskóla Íslands.

Magnús Tumi er að koma frá því að skoða aðstæður við Gígjökul ásamt fleiri vísindamönnum frá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands.

Við Gígjökul var um 30 metra djúpt lón sem hvarf á fyrstu dögum gossins í Eyjafjallajökli. Það fylltist af framburði auk þess sem efni hefur borist á Markarfljótsaura.

Magnús Tumi og samstarfsfólk hans mældi hækkun landsins í dag. Hann segir að eftir sé að vinna úr gögnunum en áætlar að framburðurinn hafi hækkað landið um 30 metra við jökulrönd Gígjökuls. Síðan hallar landinu niður. 

Grafið hefur úr farveginum þar sem áður rann úr lóninu, um fimm metra.

Íshroði er í vatninu sem kemur undan jöklinum og litlir jakar. Vísindamennirnir sáu ekki hraunslettur koma niður jökulinn eins og fólk varð vitni að í fyrradag. Þau skilyrði sköpuðust ekki í dag.

Ýmsar athuganir vísindamanna í dag, meðal annars úr lofti, benda ekki til breytinga á framgangi gossins frá því sem verið hefur undanfarna daga, að því er fram kemur í minnisblaði sem Veðurstofa Íslands og Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands sendu frá sér í kvöld.

Hraun rennur áfram til norðurs eftir farveginum að Gígjökli. Þar sjást hvítir bólstrar. Magnús Tumi áætlar þó að hraunið eigi eftir tvo og hálfan til þrjá kílómetra, til að fara niður Gígjökul. Með sama áframhaldi myndi það taka nokkuð langan tíma.

Mökkurinn úr Eyjafjallajökli var þykkur og lagði í suðaustur í …
Mökkurinn úr Eyjafjallajökli var þykkur og lagði í suðaustur í dag. Myndin var tekin úr flugvél þýsku loftrannsóknarmiðstöðvarinnar sem var að rannsaka öskuna í dag. Ljósmynd/Bernadett Weinzierl
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert