„Við viljum vinnu“

1. maí gangan á Selfossi fór friðsamlega fram.
1. maí gangan á Selfossi fór friðsamlega fram. Ljósmynd/Egill Bjarnason

„Samstaða, samhugur og samábyrgð eru í raun grundvallar verðmæti sem við eigum þegar á reynir. Þennan kraft eigum við líka að virkja í þeim efnahagshamförum sem á okkur hafa dunið í kjölfar bankahrunsins,“ sagði Skúli Thoroddsen, framkvæmdastjóra Starfsgreinasambandsins á Selfossi,  í hátíðaávarpi sínu í tilefni Verkalýðsdagsins.

Skúli sagði að sérhagsmunir og stundarhagsmunir pólitískra flokka verði að víkja fyrir hagsmunum almennings og allir að leggjast á eitt til að vinna þjóðina út úr vandanum. „Við krefjumst þess að Alþingi og ríkisstjórn snúi bökum saman, klári Icesave málið, hrindi efnahagsáætluninni í framkvæmd og gefi Stöðugleikasáttmálanum það líf að hann verði sá vegvísir út úr vanda kreppunnar sem ætlast var til.“

Auk þess skýrði Skúli út hvers vegna verkalýðshreyfingin styður aðildarviðræður Íslands að Evrópusambandinu. „Ástæðurnar fyrir því eru þær að við teljum liggja tækifæri í Evrópusambandsaðild, tækifæri til efnahagslegs stöðugleika og nýsköpunar. Við þurfum á öðrum þjóðum að halda, en aðrar þjóðir þurfa ekki endilega á okkur að halda.“

Ennfremur sagði Skúli tækifæri mörg og útlitið framundan að mörgu leyti gott. „Við skulum horfa fram á veginn. Við skulum líta til tækifæranna, við skulum vinna okkur út úr vandanum. Látum hvorki eldgos né spillingu af manna völdum brjóta okkur niður. [...]Það er ekki eftir neinu að bíða, við viljum vinnu, við viljum virkja mannaflið og það er hægt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert