Barnaheill styður breytingu á áfengislögum

Verði frumvarp Ögmundar Jónassonar að lögum verður erfiðara að komast …
Verði frumvarp Ögmundar Jónassonar að lögum verður erfiðara að komast hjá áfengislögum til að auglýsa áfengi. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Tekið er undir rök flutningsmanna frumvarps um breytingu á áfengislögum í umsögn Barnaheilla. Frumvarpið er til meðferðar hjá allsherjarnefnd Alþingis og frestur til að skila umsögnum rennur út á fimmtudag. Barnaheill telur þó að fastar megi kveða að orði í frumvarpinu.

Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins sem kveður á um að bætt verði við ákvæði um bann við auglýsingum áfengis í áfengislögunum þannig að ekki sé hægt að komast hjá því.

Ákvæðið, 3. mgr. 20. gr., er svohljóðandi í núgildandi áfengislögum:

„Bannið tekur með sama hætti til auglýsinga sem eingöngu fela í sér firmanafn og/eða firmamerki áfengisframleiðanda. Þó er framleiðanda sem auk áfengis framleiðir aðrar drykkjarvörur heimilt að nota firmanafn eða merki í tengslum við auglýsingu þeirra drykkja, enda megi augljóst vera að um óáfenga drykki sé að ræða í skilningi laganna og ekki vísað til hinnar áfengu framleiðslu.“

Samkvæmt frumvarpi Ögmundar skal hins vegar bætt við ákvæðið eftirfarandi texta:

„[...] eða hætta á ruglingi á milli áfengu framleiðslunnar og þeirrar sem verið er að auglýsa vegna nafns á vörunni, umbúða eða annarra einkenna.“


Í umsögn Barnaheilla kemur fram að samtökin telji frumvarpið styðja við þau réttindi barna sem kveðið er á um í 17. grein og 24. grein barnasáttamála Sameinuðu þjóðanna. „Í 17. grein er kveðið á um rétt barna til að hafa aðgang að upplýsingum og jafnframt um skyldu aðildarríkja til að vernda börn fyrir efni sem getur skaðað velferð þeirra. Í 24. grein er kveðið á um rétt barna til að njóta besta mögulegs heilsufars og að aðildarríki skuli stuðla að fræðslu um heilbrigt líferni og ryðja úr vegi hefðum sem skaða heilsu barna.“

Auk Barnaheilla hafa Landlæknisembættið, Lýðheilsustöð og Umboðsmaður barna sent inn umsagnir. Allsherjarnefnd hefur hins vegar ekki tekið umsagnirnar fyrir og fyrr eru þær ekki opinberar.

Ögmundur Jónasson ræðir við fréttamenn.
Ögmundur Jónasson ræðir við fréttamenn. mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert