Byggja hjúkrunarheimili í Mosfellsbæ

Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra
Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra mbl.is/Ómar Óskarsson

Félags- og tryggingamálaráðherra og bæjarstjóri Mosfellsbæjar hafa undirritað samning ráðuneytisins og Mosfellsbæjar um byggingu hjúkrunarheimilis í Mosfellsbæ.

Í samningnum er gert ráð fyrir að Mosfellsbær taki að sér að hanna og byggja 30 rýma hjúkrunarheimili við Hlaðhamra í Mosfellsbæ. Mosfellsbær leggur jafnframt til lóð undir bygginguna. Félags- og tryggingamálaráðuneytið mun á 40 árum greiða Mosfellsbæ hlutdeild í húsaleigu vegna húsnæðis sem ígildi stofnkostnaðar. Félags- og tryggingamálaráðherra gekkst nýlega fyrir lagabreytingu sem heimilar Íbúðalánasjóði að lána sveitarfélögum fyrir öllum byggingakostnaði hjúkrunarheimila og er framkvæmdin í Mosfellsbæ byggð á þeim grunni.

Níu sveitarfélög hafa átt í viðræðum við ríkið um byggingu hjúkrunarheimilis og hefur Mosfellsbær verið í forsvari fyrir þau. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir við hjúkrunarheimilið hefjist nú í sumar og það verði tekið í notkun vorið 2012.

Lífeyrissjóðir fjármagna stækkun Eirar

Þá hafa þrír lífeyrissjóðir með milligöngu verðbréfafyrirtækisins Virðingar hf. gengið frá samningi um fjármögnun lokaáfanga við byggingu öryggisíbúða hjúkrunarheimilisins Eirar við Fróðengi í Grafarvogi.  Um er að ræða lánsfjármögnun allt að ellefu hundruð milljónum króna.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert