Bændur vilja losna við sauðfé

Margir bændur undir Eyjafjöllum hafa sett sig í samband við Búnaðarsamband Suðurlands varðandi flutning á sauðfé. „Þeir vilja losna við fé sem fyrst,“ segir Hermann Árnason, hjá Búnaðarsambandinu, í samtali við mbl.is.

„Eftir nóttina í nótt og gærdaginn, þá hefur þetta versnað umtalsvert,“ segir Hermann um öskufallið undir Eyjafjöllum. „Það setti alveg gríðarlega niður á Sólheimabæjum og austast í Mýrdal og undir Eyjafjöllum.“

Hermann segir að sauðfé verði flutt á Þverá austur á Síðu, en þar sé jörð sem sé komin úr ábúð. Fé verði þó ekki flutt í dag. Það verði líklega ekki gert fyrr en á þriðjudag.

Hann segist hafa rætt við marga bændur varðandi flutning. „Ég er allavega með 200 fjár á skrá sem er tilbúið nú þegar,“ segir hann. Ekki verði þó allt flutt í fyrstu. Svæðið sé ekki mjög stórt og því takmörk fyrir því hvað hægt sé að flytja mikið af sauðfé þangað.

Búnaðarsamband Suðurlands hefur jafnframt fengið til afnota 3.000 hektara beitarsvæði í Meðallandinu, sem er í umsjá Landgræðslu ríkisins. Að sögn Hermanns er svæðið hins vegar ekki orðið klárt til að taka á móti fé. Þar eigi eftir að girða. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka