Svamlað um í selalauginni

Kópurinn stakk sér strax til sunds.
Kópurinn stakk sér strax til sunds.

Landselsurtan Særún í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum kæpti aðfaranótt 2. júní sprækum kópi. Kópurinn fór strax að synda með móður sinni og svamlar um í selalauginni gestum til mikillar gleði, segir í tilkynningu.

Þar segir að landselsurtur kæpa í látrum á landi og kóparnir líkist fullorðnum selum mjög nema hvað auðvitað séu þeir minni. Umhyggja urtanna gagnvart kópum sínum sé afskaplega sýnileg og mikið um knús þeirra á milli. 

Fyrstu fjórar til sex vikurnar næra urturnar kópana sína á móðurmjólkinni sem sé með þeim fitumeiri sem finnist. Að þeim tíma loknum bíti urtan kópinn af sér og hann þurfi þá að bjarga sér sjálfur. 

Kópurinn lifir á mjólkurforðanum í fjórar vikur en þá fyrst fer hann að taka fisk.  Særún sem er ein þriggja urta sem búa í garðinum er fyrst til að kæpa en von er á fleiri kópum á næstunni. 

Vorboðinn ljúfi grásleppan hefur hrygnt í Sjávardýrasafni Fjölskyldu- og húsdýragarðsins og rauðmaginn maki hennar gætir hrognanna af mikilli samviskusemi.  Einnig má sjá egg bertálkna í safninu en bertálkni er skellaus snigill sem finnst eingöngu í sjó.  Heiti bertálkna er dregið af því að tálkn hans eru mjög sýnileg að utanverðu þar sem þau mynda nokkurs konar krans. 

Grásleppan hefur hrygnt í Sjávardýrasafni
Grásleppan hefur hrygnt í Sjávardýrasafni
Börnin fylgdust spennt með.
Börnin fylgdust spennt með.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert