Erill hjá lögreglu víða um land

mbl.is/Júlíus

Nokkuð skemmtanahald var í Grindavík í nótt í tengslum við sjómannadaginn. Að sögn lögreglunnar á Suðurnesjum fóru skemmtanahöldin almennt vel fram. Eitthvað var um pústra sem yfirleitt voru þó búnir þegar lögregla mætti á staðinn. Þrír gistu fangageymslur lögreglu í Grindavík, þar sem lögreglustöð var höfð opin vegna hátíðahaldanna, vegna ölvunar.

Einn maður fékk að gista fangageymslur í Keflavík, vegna ölvunar á almannafæri.

Þá stöðvaði lögreglan á Suðurnesjum sex ökumenn fyrir of hraðan akstur, tvo á Grindavíkurvegi en fjóra á Reykjanesbraut. Voru þeir að aka á hraða á bilinu 116 til 132 kílómetra á klukkustund.

Nokkur erill var hjá lögreglunni á Selfossi í nótt, sem fékk nokkrar tilkynningar um minniháttar ágreiningsmál og pústra, auk þess sem afskipti þurfti að hafa af fólki sem fór óvarlega með flugelda.

Þá var tilkynnt um líkamsárás á Ráðhúskaffi í Þorlákshöfn. Maður á staðnum réðst á annan mann og veitti honum áverka í andliti. Lögregla telur sig vita hver var að verki, en ekki er búið að yfirheyra hann. Málið er í rannsókn.

Á Akranesi var einn ökumaður handtekinn og sviptur ökuleyfi vegna ölvunaraksturs. Þá var einn tekinn fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna. Blóðsýni sýndi að hann hafi neytt kannabisefna. Hann var þó ekki með nein efni á sér.

Lögreglan í Borgarnesi stöðvaði þrjá menn í bíl á leið norður í land um klukkan fjögur í nótt. Þótti ástæða til að leita í bílnum að fíkniefnum og var fíkniefnahundurinn Týri fenginn til verksins. Við leit fundust fíkniefni í fórum farþeganna í bílnum, sem voru þá yfirheyrðir en sleppt að yfirheyrslu lokinni. Mennirnir voru þó ekki undir áhrifum.

Lögreglan á Ísafirði þurfti að hafa afskipti af fjöldaslagsmálum fyrir utan skemmtistað í Bolungarvík um klukkan þrjú í nótt, en þar höfðu farið fram skemmtanahöld í tengslum við sjómannadaginn.

Einn maður gisti fangageymslur eftir það, en lögregla telur að ólætin hafi byrjað með einni líkamsárás, þar sem ráðist var á einn mann á staðnum. Það vatt síðan upp á sig og fyrr en varði var fjöldi manns farinn að taka þátt í slagsmálunum.

Þá stöðvaði lögreglan ökumann sem ók á 150 kílómetra hraða á Hnífsdalsvegi, þar sem hámarkshraðinn er 80 kílómetrar á klukkustund. Mun hann væntanlega fá himinháa sekt inn um bréfalúguna fyrr en varir.

Norðlendingar virðast hafa verið nokkuð rólegir í nótt. Dansleikur fór fram á Blönduósi, sem og í Miðgarði í Skagafirði og fór þar allt vel fram. Í það minnsta kom ekkert upp sem var svo alvarlegt að það rataði í bækur lögreglunnar. Sömu sögu var að segja á Akureyri, þar sem var talsvert skemmtanahald en fór vel fram.

Lögreglan þar sagði hins vegar að enn væri verið að stöðva ökumenn fyrir að vera með nagladekkin undir. Einnig voru tveir ökumenn stöðvaðir fyrir of hraðan akstur í gærkvöldi í umdæmi lögreglunnar á Akureyri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert