Enn rifist um styrkjamálin

Björn Valur Gíslason, lengst til vinstri, ásamt fleiri þingmönnum á …
Björn Valur Gíslason, lengst til vinstri, ásamt fleiri þingmönnum á Alþingi. Heiðar Kristjánsson

Rifist var um styrkjamál á Alþingi í dag, í umræðum um störf þingsins við upphaf þingfundar. Björn Valur Gíslason, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, gerði styrkjamál Sjálfstæðisflokksins að umtalsefni og sagði flokkinn ekki hafa greitt til baka þær upphæðir sem hann ætlaði að greiða til baka, nema að hluta. Ekki hefði verið endurgreitt með vöxtum og verðtryggingu.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, svaraði því til að Björn Valur væri að naga gamalt bein sem vinstri-grænir hefðu áður gert sér mat úr og væri nú enn að reyna að finna á því kjöt. Sagði hann að styrkjamálin væru komin í ágætis farveg í samstarfi formanna allra flokka á þingi. Samþykkt hefði verið að opna bókhald flokkanna, setja reglugerð um þau mál, beina þeim tilmælum til þingmanna að opna bókhald fyrir prófkjara sinna.

Spurði Bjarni í staðinn hvað Birni Val þætti um styrkjamál Framsóknarflokksins og Samfylkingarinnar ekki síst, og hvort þau mál væru svo miklu skárri að hægt væri að starfa með Samfylkingunni í ríkisstjórn, þótt hún hefði ekki endurgreitt neina styrki.

„Er ekki nær fyrir þingmanninn að líta sér nær? Var ekki sanngjarnt og rétt af Sjálfstæðisflokknum að taka þessa ofurstyrki og endurgreiða þá?" spurði Bjarni. Sagði hann flokkinn hafa gert það á sínum forsendum, eins og áður hefði verið gerð grein fyrir og engin skylda hefði verið á flokknum að greiða vexti og verðtryggingu af þeim styrkjum sem hann fékk.

Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, steig þá í pontu og bað Bjarna um að koma ekki upp í pontu og bjóða upp á þann málflutning að Samfylkingin hefði eitthvað að fela í styrkjamálum. „Það hefur verið gerð grein fyrir hverri krónu," sagði hún. Flokkurinn hefði ekki fengið viðlíka ofurstyrki frá einstökum styrkjendum eins og Sjálfstæðisflokkurinn. „Það hefur verið gerð grein fyrir hverri einustu krónu, hver einasti þingmaður. Það er allt uppi á borðinu. Hvenær ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að sýna á sín spil?" spurði Þórunn og varð þá uppi mikill kliður og framíköll í þingsalnum.

Bjarni steig aftur í pontu og sagðist þá ekki hafa sagt Samfylkinguna vera að fela neitt. Hann hefði bara bent á að Samfylkingin hefði ekki endurgreitt neitt af þeim styrkjum, sem fyrrverandi formaður flokksins hefði þó sagt í fjölmiðlum, að hefðu verið óeðlilegir.

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, tók svo til máls um skipulag í störfum þingsins en byrjaði á því að segja að leikritið um styrkjamálin héldi áfram og allir væru uppteknir af því í þingsalnum að ræða liðna atburði. Hló hann að tilburðum þingmanna hinna flokkanna til að mála andstæðinga sína sem spilltari en þá sjálfa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert