Ekki samkomulag um þinglok

Þingfundur hefst aftur á morgun.
Þingfundur hefst aftur á morgun. Ómar Óskarsson

Ekki hefur enn tekist samkomulag milli stjórnar og stjórnarandstöðu um þinglok. Þingfundur stóð fram á kvöld í gær, en lauk áður en umræður um vatnalög og um Varnarmálastofnun hófust. Ágreiningur er um þessi mál milli stjórnar og stjórnarandstöðu.

Á morgun hefst þingfundur á hádegi með atkvæðagreiðslum og fyrirspurnum. Um kvöldið verður eldhúsdagur með almennum stjórnmálaumræðum. Samkvæmt starfsáætlun þingsins átti að slíta fundi á þriðjudag. Eftir er hins vegar að afgreiða mörg stór mál, þar á meðal eru nokkur frumvörp sem snerta vanda heimilanna. Þau mál hafa hins vegar verið yfirfarin af nefnd síðustu dag, en stefnt er að því að þau verði tekin til umræðu á þriðjudag. Eitt þessara mála er breyting á höfuðstól bílalána. Frumvarpið felur í sér að lánunum verður breytt úr myntkörfulánum í verðtryggð lán í íslenskum krónum samhliða því að höfuðstóll lánanna lækkar.

Þess má geta að í lok þessa mánaðar er von á niðurstöðu Hæstaréttar um hvort myntkörfulán standast lög.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert