Samið um orkusölu í Straumsvík

mbl.is/Ómar

Landsvirkjun og Alcan á Íslandi hafa samið um orkusölu til álversins í Straumsvík. Til að mæta aukinni orkusölu mun Landsvirkjun ráðast í byggingu Búðarhálsvirkjunar og verða útboð auglýst á næstu vikum. Verður orkan seld samkvæmt nýju raforkuverði sem er í Bandaríkjadölum án álverðstengingu.

Samningurinn er undirritaður með hefðbundnum fyrirvörum, meðal annars samþykki stjórna beggja félaganna, sem gert er ráð fyrir að verði uppfylltir eigi síðar en 31. ágúst næstkomandi.

Álverðstengin afnumin í nýja samningnum

Samningurinn er til ársins 2036 en núgildandi samningur hefði getað gilt til 2024 næðist um það samkomulag í síðasta lagi 2014.

Í samningnum er einnig kveðið á um kaup á 75MW af viðbótarorku, sem er ein forsenda þess að unnt sé að ráðast í fyrirhugaða straumhækkun í álverinu.  Með henni stendur til að auka framleiðslugetuna um u.þ.b. 40 þúsund tonn eða í tæplega 230 þúsund tonn á ári.

Nýtt raforkuverð tekur gildi 1. október 2010. Það er í Bandaríkjadölum, verðbætt miðað við bandaríska neysluvísitölu og er álverðstenging afnumin. Samningurinn gildir til ársins 2036 sem er tæplega tólf ára framlenging frá núverandi samningi, að því er segir í tilkynningu frá Landsvirkjun.

Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar segir í fréttatilkynningu að samningurinn sé fyrsta skrefið í nýrri stefnu Landsvirkjunar um að tengja verðþróun á raforku hérlendis við þróun raforkuverðs á alþjóðlegum mörkuðum. Hann telur samninginn á margan hátt marka tímamót í orkusölusamningum  Landsvirkjunar.

Stefnt að ljúka fjármögnun í lok ágúst

Til að mæta aukinni orkusölu mun Landsvirkjun ráðast í byggingu Búðarhálsvirkjunar og verða útboð auglýst á næstu vikum.  Gert er ráð fyrir að afhending orku frá virkjuninni hefjist árið 2013. Unnið er að fjármögnun verksins og gengur sú vinna samkvæmt áætlun. Gert er ráð fyrir að ljúka fjármögnun fyrir 31. ágúst  2010.

„Þetta er mikilvægur áfangi fyrir álverið. Bæði framlengingin á núverandi orkukaupum og ákvæðin um viðbótarorku renna sterkari stoðum undir framtíð okkar,“ segir Rannveig Rist forstjóri Alcan á Íslandi. Álverið í Straumsvík veitir um 450 starfsmönnum atvinnu, auk verktaka, og eyðir nálægt hálfum öðrum milljarði króna af erlendum gjaldeyri á Íslandi í hverjum mánuði, samkvæmt fréttatilkynningu frá Alcan.

Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar og Rannveig Rist forstjóri Alcan á …
Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar og Rannveig Rist forstjóri Alcan á Íslandi undirrita samninginn.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert