Fréttaskýring: Of sterk evra átti þátt í hruni hennar

Evrur.
Evrur. mbl.is

Forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, Herman Van Rompuy, sagði fyrir skömmu í viðtali í Financial Times að rekja mætti vanda ríkja myntbandalags Evrópu til fyrri styrks evrunnar.

Samanburður á gengi evru og dollars sýnir að frá ársbyrjun 2006 fram á mitt ár 2008 hækkaði evran gagnvart dollar um nærri 40%. Evran hefur sveiflast talsvert frá því hún var tekin upp á árinu 1999.

„Það sem fór úrskeiðis er ekki vegna þess sem gerðist í ár. Það sem fór úrskeiðis gerðist á fyrstu ellefu árunum í sögu evrunnar. Á einhvern hátt urðum við fórnarlömb eigin velgengni,“ sagði Van Rompuy.

Það voru margir sem höfðu efasemdir þegar evran var tekin upp. Menn bentu á að efnahagsleg staða landanna sem sameinuðust um einn gjaldmiðil væri ólík og ólíklegt væri að efnahagslíf landanna þróaðist með sama hætti. Margt benti til að spádómar um ófarir evrunnar ætluðu að ganga eftir því að fyrst eftir að evran var tekin upp féll gengi hennar mikið. Það var ekki fyrr en á árinu 2002 sem hún fór að rétta úr kútnum.

Árið 2008 var gengi evru gagnvart dollar orðið tvöfalt hærra en það var 2002. Van Rompuy telur eftir á að hyggja að þessi mikla hækkun hafi leitt til þess að menn voru ekki vakandi fyrir þeim veikleikum sem voru í efnahagslífi evruríkjanna.

Óróinn í Grikklandi

Mikið hefur verið fjallað um vanda Grikklands, en ríkissjóður landsins er mjög skuldsettur. Samkvæmt opinberum tölum námu skuldir ríkissjóðs 115% af landsframleiðslu um síðustu áramót. Hallinn á rekstri ríkissjóðs er um 13,6%.

Það er alveg ljóst að Grikkir hafa staðið illa að stjórn efnahagsmála á undanförnum árum. Þeir hafa ekki virt reglur sem ESB gerir til evruríkja um skuldir og halla á ríkissjóði. Grikkir hafa verið sakaðir um að hafa leynt vandanum og hreinlega gefið upp rangar tölur um stöðu mála. Málið er þó flóknara en svo að hægt sé að skella allri skuldinni á Grikki. Þegar Grikkir fengu inngöngu í evrusvæðið uppfylltu þeir strangt til tekið ekki þau skilyrði sem sett voru fyrir evruaðild. Þá var hins vegar gert óformlegt samkomulag um að tilteknar ríkisskuldir skyldu vera teknar út fyrir sviga. Þetta voru m.a. skuldbindingar vegna kaupa á herþotum. Allar þjóðirnar í evrusamstarfinu vissu af þessum reikningskúnstum.

Menn ýttu vandanum í sambandi við skuldasöfnun Grikkja síðan alltaf á undan sér, kannski vegna þess að hinar þjóðirnar í evrusambandinu voru heldur ekki með hreinan skjöld. Halli á rekstri ríkissjóða flestra landanna var meiri en hann mátti vera samkvæmt reglum myntsamstarfsins.

Nú er hins vegar komið að skuldadögum. Grikkir verða að taka á þeirri óstjórn sem þar hefur verið í efnahagsmálum. Þetta verður ekki auðvelt. Aðrar þjóðir í Evrópu standa líka frammi fyrir niðurskurði í ríkisfjármálum.

Þótt ýmsir spái því þessa dagana að evrusamstarfið sé dauðadæmt er ólíklegt að þjóðirnar sem mynda myntsamstarf Evrópu gefi það upp á bátinn. Spurningin er hins vegar hvernig á að taka á þjóðum sem vegna óstjórnar eða af öðrum ástæðum ná ekki að fylgja eftir markmiðum evrusamstarfsins í efnahagsmálum. Svarið virðist liggja í meiri miðstýringu. Þeir sem lengi hafa fylgst með Evrópuþróuninni segja líka að samstarf Evrópuríkja hafi einmitt oftast aukist þegar eitthvað bjáti á. Þegar komi upp krísa þá „neyðist“ menn til að auka samstarfið.

Misstu hluta af fullveldinu

„Við höfum tapað hluta af fullveldi okkar vegna þess að við höfum tapað trúverðugleika okkar. Við erum ákveðin í því að endurheimta þennan trúverðugleika og munum gera það sem nauðsynlegt er,“ sagði George Papandreou forsætisráðherra Grikklands, í samtali við Bloomberg-fréttastofuna í vor þegar hann ræddi um efnahagsvanda Grikklands.

Þegar stjórn Papandreou tók við völdum kom í ljós að hallinn á ríkissjóði var tvöfalt hærri en gefið hafði verið upp. Undanskot undan skatti er gríðarlegt vandamál í Grikklandi. Það er því kannski ekki nema von að Papandreou tali um að skortur á trúverðugleika sé hluti af vanda Grikkja. Þær þjóðir sem beðnar voru um að hjálpa Grikkjum telja sig hafa ríka ástæðu til að vantreysta þeim. Hinar þjóðirnar í myntsamstarfinu vita hins vegar að ef þær reyna ekki að styðja við bakið á Grikkjum grafa þær undan evrunni. Barátta Grikkja við að endurheimta trúverðugleika snýst því líka um að endurheimta trúverðugleika evrunnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert