Fréttaskýring: Inngrip stjórnvalda ólíklegt

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Brynjar Gauti

Líklegt þykir að umsamdir vextir verði látnir standa í lánasamningum sem kváðu á um gengistryggingu sem Hæstiréttur dæmdi ólögmæta í síðustu viku. Þetta herma heimildir Morgunblaðsins innan efnahags- og skattanefndar og viðskiptanefndar Alþingis en til álita hefur komið að vaxtaákvæðum verði breytt til samræmis við lægstu óverðtryggðu vexti Seðlabankans. Þá kvað Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og skattanefndar, í hádegisfréttum RÚV að færð hefðu verið sannfærandi lagarök þessa efnis. Nefndirnar funduðu í gærmorgun um afleiðingar dóma Hæstaréttar.

Í dómunum var af réttarfarsástæðum ekki tekin afstaða til þess hvort breyta ætti ákvæðum samninganna. Aðeins var skorið úr um að gengistryggingin væri ólögmæt og ákvæði um hana í samningum um lán í íslenskum krónum því ekki skuldbindandi.

Fyrirtækin bíða fleiri dóma

Vaxtaákvæði samninga um gengistryggð lán eru langoftast mun lægri en vextir Seðlabankans. Lægstu óverðtryggðu vextir hans nema nú 8,5%.

Fjármögnunarfyrirtækin hafa haldið því fram að ekki liggi fyrir hvernig skuli reikna afborganir þar sem ekki var kveðið á um neina leiðréttingu, aðeins að gengistryggingin væri óheimil. Er það þó mat lögmenntaðra sérfræðinga á sviði fjármunaréttar að niðurstaða Hæstaréttar leiði einfaldlega til þess að samningar skuli standa fyrir utan ákvæði um gengistryggingu. Þannig skuli innheimta umsamda afborgun af höfuðstóli ásamt umsömdum vöxtum en án gengistryggingar.

Vegna hinnar ætluðu óvissu hafa mörg fyrirtækjanna slegið útgáfu innheimtuseðla á frest þar til skýrari niðurstaða fæst úr sambærilegum málum sem nú liggja fyrir dómstólum. Í að minnsta kosti einhverjum þeirra er gerð varakrafa af hálfu fjármögnunarfyrirtækja um að skilmálum lánasamninga verði breytt til samræmis við samninga um verðtryggð lán í íslenskum krónum. Yrði fallist á slíka kröfu myndi réttarstaðan breytast til hagsbóta fyrir lánardrottna.

Þegar lögmæti gengistryggingarinnar var fyrst dregið í efa og farið með hana fyrir dómstóla héldu fjármögnunarfyrirtækin áfram að innheimta þrátt fyrir réttaróvissuna sem skapaðist. Nú þegar beðið er dóma þess efnis hvort beita eigi vöxtum Seðlabankans við innheimtu hafa flest fyrirtækin ákveðið að fresta frekari innheimtu þó réttarástandið sé skýrt að svo stöddu að mati lögfræðinga sem Morgunblaðið hefur leitað til. Beita á umsömdum vöxtum og innheimta í samræmi við þá án gengis- eða verðtryggingar.

„Dómurinn sneri ekki að Avant, hann sneri að hinum fyrirtækjunum. Við vorum ekki í þessum málarekstri en um leið og dómurinn var kveðinn upp þá bara stoppuðum við allt saman. Þar fannst okkur vera komin endastöð og þetta mál snúa að okkur öllum,“ segir Magnús Gunnarsson framkvæmdastjóri Avant.

Aðrir forsvarsmenn fjármögnunarfyrirtækja vildu ýmist ekki tjá sig eða svöruðu ekki blaðamönnum Morgunblaðsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert