Heildarmat fasteigna á landinu lækkar um 8,6%

Fasteignaeigendur um allt land fá í dag og á morgun …
Fasteignaeigendur um allt land fá í dag og á morgun tilkynningar um niðurstöður fasteignamats fyrir árið 2011. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Fasteignaeigendur um allt land fá í dag og á morgun tilkynningar um niðurstöður fasteignamats fyrir árið 2011. Heildarmat fasteigna á landinu öllu lækkar um 8,6% og verður rúmlega 4.000 milljarðar króna. Mat íbúðarhúsnæðis á landinu öllu lækkar um 10% og verður rúmlega 2.600 milljarðar króna. Þetta var kynnt á blaðamannafundi í dag.

Í lögum, sem tóku gildi í byrjun árs 2009, er kveðið á um að hver einasta fasteign skuli metin árlega í ljósi kaupsamninga um sambærilegar eignir og eigendum tilkynnt niðurstaðan í júnímánuði. Þar segir ennfremur að fasteignamat á hverjum tíma skuli endurspegla markaðsverðmæti (staðgreiðsluverð) fasteignar í febrúar.

Fasteignamat íbúðarhúsnæðis fyrir árið 2010 var unnið á síðasta ári í samræmi við nýju lögin. Fasteignamat íbúðarhúsnæðis, sem nú er kynnt vegna ársins 2011, er því gert í annað sinn miðað við breyttar forsendur.

Fyrir tíma núgildandi laga var fasteignamat framreiknað frá ári til árs í samræmi við verðlagsþróun. Voru notaðir framreiknistuðlar fyrir tiltekna eignaflokka í heilum sveitarfélögum eða byggðakjörnum, óháð breytingum á markaðsvirði einstakra eigna.

Nú er notað reiknilíkan sem gefur niðurstöður um hvað staðgreiðsluverð sambærilegra fasteigna á sama svæði hefur verið samkvæmt fyrirliggjandi kaupsamningum.

 Heildarfasteignamat á höfuðborgarsvæðinu lækkar um 10,4%, á Suðurnesjum um 7,4%, á Vesturlandi um 6,4%, á Vestfjörðum um 1,2%, á Norðurlandi vestra um 0,7%, á Norðurlandi eystra um 4,4%, á Austurlandi um 0,8% og á Suðurlandi um 3,4%.

Mat á innan við 1% eigna á höfuðborgarsvæðinu hækkar. Lækkanir geta verið þar mismiklar, sem skýrist annars vegar af mismunandi verðþróun eftir hverfum og hins vegar af endurbættum matsaðferðum.

Áhrif staðsetningar og annarra eiginleika á verðmat eigna voru endurskoðuð eftir því sem ástæða þótti til. Þannig á fasteignamat að endurspegla markaðsverð eins vel og unnt er við hvert endurmat. Nefna má Kórahverfi í Kópavogi og Úlfarsárdal í Reykjavík sem dæmi þar sem mat á íbúðareignum lækkar umfram meðaltal höfuðborgarsvæðisins en á hinn bóginn hækkar mat á flestum eignum neðst í Fossvogi og á sjávarlóðum á Arnarnesi.

Vestmannaeyjar skera sig úr á lista yfir heildarmat fasteigna á landinu öllu. Þar hækkar matið um 10,4%. Sömuleiðis hækkar heildarmatið í Skútustaðahreppi um 7,7%, í Grýtubakkahreppi um 6,5%, á Höfn í Hornafirði um 5,5% og í Akrahreppi, Fljótsdalshreppi og Ásahreppi um 3,2-3,6%.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert