Ekki enn kominn að bryggju

Farþegaferjan Herjólfur var komin ískyggilega nærri grjótfjörunni
Farþegaferjan Herjólfur var komin ískyggilega nærri grjótfjörunni mbl.is/Júlíus

Enn er ekki búið að koma farþegaferjunni Herjólfi að bryggju í Vestmannaeyjahöfn. Þó er búið að binda skipið og rekur það ekki lengur stjórnlaust um höfnina. Beðið er eftir kafara til að kanna skemmdir á skrokk ferjunnar.

Herjólfur missti vélarafl þegar hann lagði frá bryggju nú síðdegis, um leið og búið var að leysa landfestar.

Frár VE og hafnsögubáturinn Lóðsinn reyndu að koma Herjólfi að bryggju að nýju en verkið vannst hægt vegna veðurs en nú er stíf austanátt í Eyjum og tekur Herjólfur á sig mikinn vind.

Búið er að binda skipið en ekki hefur náðst að færa það að bryggju til að geta hleypt farþegum frá borði.

Samkvæmt fréttavefnum Eyjafrettir.is var afturendi Herjólfs kominn ískyggilega nálægt grjótfjöru sem er við hlið bílabrúar skipsins.  Einungis var rúmur meter í stórgrýtið og spurning hvort skipið hafi tekið niðri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert