Neitaði að færa sig yfir götu

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Þorkell

Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði í dag að maður, sem var handtekinn þann 1. október árið 2009 fyrir að brjóta gegn fyrirmælum lögreglu fyrir utan sendiráð Bandaríkjanna að Laufásvegi 21, skyldi ekki hljóta refsingu.

Hann var á hinn bóginn fundinn sekur um að brjóta gegn valdstjórninni og þarf af þeim sökum að greiða allan málskostnað sem er 200.000 krónur.

Málavextir voru þeir að ákærði stóð umræddan dag í félagi við tvo aðra við sendiráðið og mómælti stríðsrekstri Bandaríkjamanna um víða veröld. Lögreglumenn bar þá að garði og fóru inn í sendiráðið. Þeir komu út aftur stuttu síðar og báðu mótmælendurna þrjá að færa sig yfir á gangstéttina hinum megin götunnar. Ákærði neitaði bóninni og var í framhaldi af því tekinn höndum.

Ísland og Bandaríki Norður-Ameríku hafa með sér stjórnmálasamband á grundvelli Vínarsamningsins frá 1961. Samkvæmt 2. mgr. 22. gr. laganna hvílir sú skylda á íslenskum stjórnvöldum að grípa til viðeigandi ráðstafana til að vernda sendiráð fyrir árásum og koma í veg fyrir röskun á friði eða skerðingu á virðingu þess.

Í dóminum segir að bónin hafi verið hófstillt og í henni hafi ekki falist skerðing á mannréttindum mótmælenda. Ákærði var talinn hafa gerst brotlegur við 19. grein lögreglulaga nr. 90/1996.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert