Skýrslu um fiskveiðistjórn seinkar

Starfshópur um endurskoðun laga um fiskveiðar er enn að störfum.
Starfshópur um endurskoðun laga um fiskveiðar er enn að störfum. mbl.is

Skýrsla starfshóps sem endurskoðar lög um fiskveiðistjórnun verður líklega ekki tilbúin til birtingar fyrr en í kringum 20. ágúst, að mati Guðbjarts Hannessonar, alþingismanns og formanns starfshópsins. Meginumræðuefni starfshópsin eru auðlindaákvæði stjórnarskrárinnar, núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi og úthlutun aflaheimilda.

Starfshópurinn hefur fundað tvisvar í viku síðustu vikurnar og lauk einum fundinum nú síðdegis. „Við erum að setja upp heildarskýrsluna,“ sagði Guðbjartur. „Við ætlum að láta vinna ákveðnar hugmyndir betur þannig að þetta dregst eitthvað fram í ágúst. En þetta er allt í fullum gangi.“

Guðbjartur kvaðst gera ráð fyrir því að gert yrði fundahlé í næstu viku og fram yfir verslunarmannahelgi. Vinnan heldur þó áfram utan fundanna. Allir hlutaðeigandi hafa mætt til fundanna, eftir því sem þátttakendur geta um hásumarleyfistímann.

Hann sagði að starfhópurinn fjalli um þrjá meginþætti í starfi sínu. Það er auðlindaákvæði stjórnarskrárinnar, en umhverfið er nú breytt að því leyti að það ákvæði fer væntanlega fyrir stjórnlagaþing.

Í öðru lagi hefur verið farið yfir einstaka þætti núverandi fiskveiðistjórnunar. Menn hafa lýst skoðun sinni á einstökum þáttum hennar og því hvað betur megi fara. 

Í þriðja lagi hefur verið rætt um úthlutun aflaheimilda og með hvaða hætti henni verði best hagað. 

„Þetta er allt í gangi ennþá og það kemur engin niðurstaða fyrr en hún kemur í heild,“ sagði Guðbjartur. Eftir er að vinna og lesa yfir textann og afgreiða ýmis álitamál. Eins kann að verða skilað sérstökum álitum um einstök mál.

„Þessi vinna er öll í gangi og menn verða að lesa og vinna, þótt við fundum ekki. Við verðum að horfast í augu við að við klárum þetta ekki eins fljótt og við ætluðum okkur,“ sagði Guðbjartur. Aðspurður nánar um hvenær skýrslan verði tilbúin taldi Guðbjartur líklegt að það gæti orðið í kringum 20. ágúst.

Guðbjartur Hannesson er formaður starfshópsins.
Guðbjartur Hannesson er formaður starfshópsins. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert