Allt gekk samkvæmt áætlun

Herjólfur með trýnið opið í Landeyjahöfn í gærkvöldi.
Herjólfur með trýnið opið í Landeyjahöfn í gærkvöldi. mbl.is/Sigurður Bogi

„Siglingin gekk mjög vel og ekki verður sagt að neitt óvænt hafi komið upp á,“ segir Ívar Gunnlaugsson, einn skipstjóra Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs, aðspurður um fyrstu tilraunasiglingu Herjólfs sem var í gærkvöldi. Gott hafi verið í sjóinn og lítill vindur.

Ívar segir að enn eigi eftir að prófa siglinguna í verra veðri en hann er bjartsýnn á að það gangi vel. 

Guðmundur Nikulásson, framkvæmdastjóri Eimskips innanlands, tekur í sama streng. „Þetta gekk mjög vel og var alveg í samræmi við okkar væntingar. Það er allt að verða klárt þarna og okkur líst mjög vel á þetta,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Hann segir að verktakar sem hafa komið að framkvæmdunum í Landeyjahöfn hafi staðið sig vel. „Húsið verður ekki alveg tilbúið á miðvikudag, en nógu tilbúið svo við getum notað það. Svo klára þeir það á næstu dögum á eftir. Þannig að þetta lítur mjög vel út.“ 

Siglingin tók tæpar 40 mínútur, sem var samkvæmt áætlun. Herjólfur var áður um tvær klukkustundir og fjörutíu og fimm mínútur að sigla til Vestmannaeyja.

„Þetta er náttúrulega þröngt og lítil höfn fyrir þetta stórt skip. En við lærum á það eins og annað,“ segir Ívar sem hefur verið skipstjóri á Herjólfi frá því árið 2006.

Fyrirhugað er að opna höfnina formlega með siglingu 20. júlí þar sem ráðherrum verður boðið að sigla milli lands og eyja. 

Almennar siglingar hefjast svo miðvikudaginn 21. júlí.

Fyrst var miðað við að hefja siglingar 1. júlí en gosið í Eyjafjallajökli  seinkaði framkvæmdum.

Skipstjórarnir Steinar Magnússon og Ívar Gunnlaugsson.
Skipstjórarnir Steinar Magnússon og Ívar Gunnlaugsson. mbl.is/Sigurður Bogi
Guðmundur Pedersen, rekstrarstjóri Herjólfs, Guðmundur Nikulásson, framkvæmdastjóri Eimskips innanlands, og …
Guðmundur Pedersen, rekstrarstjóri Herjólfs, Guðmundur Nikulásson, framkvæmdastjóri Eimskips innanlands, og Stefán Stefánsson, rekstrarstjóri Flytjanda fylgdust með í gærkvöldi. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert