Úttekt á smáhýsum fyrir heimilislausa

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur.

Velferðarráð Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum í dag að gerð verði úttekt á því hvernig til hefur tekist með búsetu fólks í smáhýsum á Granda og þeirri þjónustu sem þar hefur verið veitt. 

Að sögn Bjarkar Vilhelmsdóttur, formanns velferðarráðs, hefur töluverður órói verið í kringum smáhýsin á undanförnum vikum og umræða um þau skapast við fráfall gestkomandi konu þar í síðustu viku. Segist Björk hafa bent á, að það sé hlutverk Reykjavíkurborgar að veita heimilislausu fólki húsnæði og mikilvægt sé að veitt þjónusta mæti þörfum þeirra sem hana fáu og að um hana skapist friður.   

Björk segir, að þjónusta við þennan hóp borgarbúa hafi aukist á sl. tveimur árum m.a. með aðstöðu til dagdvalar, færanlegu Heilsuhýsi sem sinnir heilsuvernd fyrir jaðarhópa og nýju stöðugildi félagsráðgjafa sem sinni utangarðsfólki á vettvangi. 

Næsta skref í aukinni þjónustu sé nýtt heimili fyrir utangarðskonur. Undirbúningur fyrir það sé á lokastigi og verði hægt að bjóða konum, sem tilheyra þessum hópi, framtíðarheimili innan nokkurra vikna.

Á fundi velferðarráðs í dag var einnig lögð fram tillaga frá fulltrúum Vinstri grænna um að skipa fimm manna nefnd kjörinna fulltrúa til að kortleggja stöðu utangarðsfólks. Sú tillaga var felld með 6 atkvæðum fulltrúa Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins. Segir Björk, að ekki þurfi nýja nefnd um það sem nýbúið sé að fjalla um og ákveða en á síðasta ári hafi velferðarráð og Nýsköpunarsjóður námsmanna kortlagt og rannsakað stöðu utangarðsfólks.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert