80 þúsund tóku strætó

Strætó var þéttsetinn á Menningarnótt
Strætó var þéttsetinn á Menningarnótt mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Um 80.000 farþegar tóku strætó á Menningarnótt, sem er með því mesta sem almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu hafa flutt á einum degi frá upphafi. Sérstakt átak var gert að þessu sinni til að hvetja almenning til að taka strætó og var m.a. boðið frítt í strætó allan daginn og ferðum fjölgað.

Í tilkynningu kemur fram að akstur strætó um daginn og kvöldið gekk heilt yfir mjög vel og vilja stjórnendur og starfsfólk Strætó bs. nota tækifærið og þakka almenningi fyrir samveruna og samfylgdina á meðan á Menningarnótt stóð.

„Eftir því var tekið hjá bílstjórum og starfsfólki hve jákvæðir farþegar voru og duglegir við að nýta sér þjónustuna allan daginn. Greiðlega gekk að anna eftirspurn á mesta álagspunktinum eftir flugeldasýninguna en eins og gefur að skilja er álagið mikið á strætókerfið og umferðina þegar tugþúsundir manna stefna úr miðborginni á sama tíma.
 
Um leið vilja stjórnendur Strætó bs. koma á framfæri þakklæti við starfsfólk sitt og verktaka Strætó bs., sem svaraði kallinu á annasamasta degi ársins og stóð sig með prýði. Allir tiltækir strætisvagnar voru í notkun samtímis þegar mest var og allir starfsmenn sem komust til vinnu þennan dag voru kvaddir til svo hægt væri að anna eftirspurninni," segir í tilkynningu.
 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert