„Ætlum að vera lægstir áfram“

Höfuðstöðvar Orkubús Vestfjarða.
Höfuðstöðvar Orkubús Vestfjarða. mbl.is

„Ég get ekki svarað því á þessari stundu. Við þurfum að fara yfir málin og það sést væntanlega eftir helgina hvort við bregðumst við hækkun á samkeppnismarkaði,“ sagði Kristján Haraldsson, orkubússtjóri Orkubús Vestfjarða þegar hann var inntur eftir því hvort hann sæi með hækkuninni á gjaldskrá Orkuveitu Reykjavíkur færi á að hækka sína gjaldskrá. Orkubú Vestfjarða gefur sig út fyrir að vera með lægsta auglýsta raforkuverð á landinu en þar var verðskrá fyrir raforkusölu síðast hækkað um 3% þann 1. ágúst sl.

„Ég hef hins vegar áður sagt að verð einkaleyfisþátta, hitaveita og dreifing raforku verður óbreytt til áramóta. Það getur vel verið að við skoðum stöðu okkar hvað varðar samkeppnisþáttinn sem er að hækka um 11% hjá OR. Við vorum lægstir fyrir og ætlum að vera lægstir áfram,“ segir Kristján.

Með breytingu á  raforkulögum var neytendum í ársbyrjun 2006 gefinn kostur á að skipta um raforkusala þegar framleiðsla og sala á rafmagni var markaðsvædd en þeir eru hins vegar enn bundnir við sínar hitaveitur.

En ræður Orkubú Vestfjarða við aukinn fjölda viðskiptavina ef sú staða kæmi upp í ljósi frjálsrar raforkusölu?

„Þetta er í raun spurning um hvaða viðskipti við getum gert á heildsölumarkaði þar sem við eigum ekki rafmagn á lager. Hvaða kjör bjóðast og fleira sem við verðum að skoða. Ég sé ekki fyrir mér að við getum þjónustað skyndilega aukinn fjölda viðskiptavina á því verði sem við bjóðum í dag. Í fyrsta lagi er raforkan ekki til nema þá í gegnum heildsala. Væntanlega yrði hún líka að vera dýrari þar sem við eigum við ekki vöruna til. Þetta eru hins vegar allt hlutir sem við eigum eftir að skoða og vitum þá meira í næstu viku,“ sagði Kristján að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert