Þykir vænt um Jón Bjarnason

Össur Skarphéðinsson.
Össur Skarphéðinsson.

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, upplýsti á Alþingi í dag, að honum þætti vænt um Jón Bjarnason, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra en líkja mætti sambandi þeirra tveggja við erfitt hjónaband.

Sagði Össur að þeir Jón væru stundum ósammála og rifust og þau rifrildi hefðu brotist út í fjölmiðlum. Hins vegar gæti hann vel umborið skoðanir Jóns og þær skoðanir hefðu alltaf legið fyrir.

Þessi ummæli Össurar féllu eftir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði að hann saknaði gamla góða utanríkisráðherrans en Össur hefði að undanförnu meðal annars ráðist opinberlega á Jón Bjarnason, „þann ljúfling sem öllum í þinginu líkar vel við, nema kannski þingflokki Samfylkingarinnar."

Þá kvartaði Sigmundur Davíð einnig yfir árásum Össurnar á Framsóknarflokkinn að undanförnu. 

Össur sagðist vera í góðu skapi, meðal annars eftir að ljóst var að í landinu væri meirihlutastjórn. Þá sagðist hann ekki kannast við köpuryrði um Framsóknarflokkinn enda bæri hann hlýjan hug til flokksins og vildi hjálpa honum og reisa hann við.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert