Segist ekki hafa beitt þrýstingi

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra vísar því alfarið á bug að hún hafi beitt þingnefnd sem fjallar um mögulega ábyrgð ráðherra þrýstingi eða rætt við Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra, líkt og fram kemur í Morgunblaðinu í dag. Hún krefst þess að blaðið biðji sig afsökunar.

„Ég er ekki vön því að elta ólar við spuna og óvandaðan fréttaflutning Morgunblaðsins, sem gegnum mína tíð sem forsætisráðherra hefur oft verið yfirgengilegur. Þarna keyrir náttúrulega úr öllu hófi,“ sagði Jóhanna.

„Auðvitað hef ég engin afskipti haft af þessu máli. Þetta er fullkomlega úr lausu lofti gripið og enginn rök fyrir. Og auðvitað á ég ekki - frekar en aðrir - að vera skipta mér af niðurstöðu nefndarinnar. Ég hef engar forsendur til þess. Þannig að ég blæs auðvitað á þennan fréttaflutning sem mér finnst algjörlega yfirgengilegur. Og Morgunblaðið á að biðja mig afsökunar á þessu.“

Þá segist Jóhanna ekki hafa rætt við Björgvin um það hvernig hann ætti að taka á sínum málum varðandi niðurstöðu nefndarinnar, sem Jóhanna segist ekki vita hver sé.

Þetta kom fram á blaðamannafundi sem var haldinn eftir ríkisstjórnarfundinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert