Ók á fóðurkorn og missti stjórnina

Umferðarslys varð á Auðsholtsvegi við bæinn Langholt í Hrunamannahreppi  í gær þegar ökumaður bifhjóls missti stjórn á bifhjólinu sem valt. Segir lögreglan á Selfossi, að þetta hafi gerst þegar maðurinn ók yfir fóðurkorn sem fallið hafði á veginn.

Farþegi, sem var á hjólinu slasaðist á hendi og öxl. Lögreglan segir ekki vitað hvað olli því að kornið var á veginum en gera megi því skóna að það hafi fallið af palli flutningstækis.

Þá slösuðust þrír þegar bíll valt   á Biskupstungnabraut snemma í gærmorgun á móts við bæinn Múla. Bílnum var ekið áleiðis að Geysi þegar ökumaður missti stjórnina.

Ökumaðurinn, sem er grunaður um ölvun við akstur, var fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild Landspítala en tveir farþegar á heilsugæslustöðina á Selfossi.  Enginn reyndist alvarlega meiddur. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert