Gengisbundin lán um 1000 milljarðar

Virði erlendra gengisbundinna lána almennings og fyrirtækja er talið vera rúmir 1000 milljarðar króna, samkvæmt upplýsingum frá efnahags- og viðskiptaráðuneytinu. Þar af nema lán til einstaklinga tæpum 140 milljörðum.

Erlend gengisbundin lán einstaklinga nema um 78 milljörðum króna vegna húsnæðislána, en rúmum 61 milljarði króna vegna bílalána. Lán fyrirtækja nema hins vegar um 841 milljarði króna, þar af um 256 milljarðar til sjávarútvegsfyrirtækja.

Efnahags- og viðskiptaráðherra boðaði í dag, að lagt yrði fram frumvarp á Alþingi um að niðurstaða Hæstaréttar í dag um gengistryggingu lána nái til allra lána vegna bíla- og húsnæðiskaupa einstaklinga, sem tengd eru gengi erlendra gjaldmiðla.

Það fer eftir tegund lánsins hve mikið greiðslubyrði og höfuðstóll láns lækka. Ráðuneytið segir, að samkvæmt útreikningum sérfræðinga Seðlabanka  Íslands  muni eftirstöðvar þessara lána lækka verulega við breytinguna, t.d. um 25% til 47% fyrir 25 ára lán.

Eftirstöðvar og höfuðstóll lækka

Efnahags- og viðskiptaráðuneytið nefnir tvö dæmi um breytingar á lánum sem lagafrumvarpið  muni hafa í för með sér.

Dæmi A

Ása og Signý tóku báðar 20 milljón króna húsnæðislán, hvor hjá sínum banka í júlí 2005. Ása fékk gengisbundið lán hjá banka A, en Signý fékk gengisbundið lán hjá banka B. Fimm árum seinna hefur lán Ásu verið dæmt ólöglegt og vextir sem Seðlabankinn auglýsir gilda. Líta þá eftirstöðvar lánanna svona út:

  • Ása skuldar 19.332.600 kr. af ólöglega gengisbundna láninu í banka A.
  • Signý skuldar 37.928.041 kr. af láni sínu í banka B, sem stendur enn sem löglegt vegna annarrar skjalagerðar en lán Ásu.

Ef eitt verður látið ganga yfir allar mismunandi gerðir gengisbundinna lána til einstaklinga, ættu Ása og Signý báðar eftir að greiða 19.332.600 kr. af lánum sínum.

Dæmi B

Nonni og Manni tóku báðir 4 milljón króna bílalán, hvor hjá sínum banka í janúar 2006. Nonni fékk gengisbundið lán hjá banka A, en Manni fékk gengisbundið lán hjá banka B. Fjórum og hálfu ári síðar hefur lán Nonna verið dæmt ólöglegt og vextir sem Seðlabankinn auglýsir gilda. Líta þá eftirstöðvar lánanna svona út:

  • Nonni skuldar 1.413.822 kr. af ólöglega gengisbundna láninu í banka A.
  • Manni skuldar 2.715.080 kr. af láni sínu í banka B, sem stendur enn sem löglegt vegna annarrar skjalagerðar en lán Nonna.

Ef eitt verður látið ganga yfir allar mismunandi gerðir gengisbundinna lána til einstaklinga, ættu Nonni og Manni báðir eftir að greiða 1.413.822 kr. af lánum sínum.
 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert