Óveruleg áhrif á Arion banka

Arion banki segist að undanförnu hafa unnið með Fjármálaeftirlitinu við að meta hugsanleg áhrif af lánum í erlendri mynt á efnahag bankans. Það sé mat bankans að þó fyrirhugað frumvarp viðskiptaráðherra verði að lögum hafi það óveruleg áhrif. Bankinn muni áfram uppfylla skilyrði
Fjármálaeftirlitsins um 16% eiginfjárhlutfall og 20% lausafjárhlutfall.

Bankinn segir, að með boðuðu frumvarpi efnahags- og viðskiptaráðherra, í kjölfar dóms Hæstaréttar Íslands í dag, sé dregið úr óvissu sem ríkt hafi að undanförnu um skuldamál einstaklinga. Hið langvinna óvissuástand hafi valdið viðskiptavinum bankans óþægindum og takmarkað svigrúm hans til úrlausnar á skuldamálum einstaklinga og heimila.
 
Í kjölfar lagasetningar muni liggja fyrir nákvæmari útfærsla og útreikningar gagnvart viðskiptavinum Arion banka. Hins vegar sé bankinn ekki með nein erlend bílalán í sínum bókum. 

Fram að lagasetningu Alþingis mun Arion banki áfram bjóða viðskiptavinum sínum með íbúðalán í erlendri mynt, og með veði í fasteign, að greiða 5000 kr. af hverri milljón upphaflegs höfuðstóls. Þá ítrekar bankinn að viðskiptavinir glata ekki betri rétti þótt þeir nýti sér úrræði bankans og árétta að engar nauðungarsölur á íbúðahúsnæði verði á vegum bankans á þessu ári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert