Lambakjöt mun hækka í verði

„Við erum að fara inn í stórkostlega tækifæristíma fyrir íslenskan landbúnað og sauðfjárrækt. Nú er lag að spýta í lófana og auka framleiðsluna og nýta þessi tækifæri á erlendum mörkuðum,“ segir Ágúst Andrésson, forstöðumaður kjötafurðarstöðvar Kaupfélags Skagfirðinga. 

„Ísland á eftir að gegna miklu stærra hlutverki í framtíðinni við að fæða mannkynið þótt við séum lítil þjóð,“ segir Ágúst og bendir á að mikill samdráttur í lambakjötsframleiðslu á Nýja-Sjálandi og Ástralíu hafi skapað sóknarfæri á Evrópumarkaði fyrir íslenskt lambakjöt.

Lambakjötskvóti Nýsjálendinga á Evrópumarkaði sé 218.000 tonn, samanborið við 1.850 tonna kvóta Íslendinga. Kvótinn fæst ekki aukinn á þessu ári og telur Ágúst góðar líkur á að Evrópusambandið fallist á að auka hann á næsta ári í ljósi þess að útlit sé fyrir að Nýsjálendingar og Ástralir, sem haft hafi 70% hlutdeild á markaðnum á heimsvísu, muni ekki ná að vega á móti samdrætti í framleiðslu heima fyrir.

Mun hækka í verði eins og ýsan

- Ýsa var ódýr hér áður fyrr en flokkast nú undir munaðarvöru. Er lambakjötið að fara sömu leið?

„Já. Ég er alveg sammála því. Við vitum hvernig fiskverð hefur þróast hér innanlands. Staðan var þannig að Íslendingar lifðu á fiski. Soðningin var það sem menn fleyttu sér á. Nú er staðan orðið þannig að fiskur er orðin munaðarvara innanlands. Við eigum að halda í gömlu góðu gildin í þessu og hafa lambakjötið sem munaðarvöru. Þannig verður það áfram.“ 

Leita allra leiða til að fá sem hæst verð

Ágúst segir eftirspurnina erlendis þrýsta verðinu upp.

„Menn sem eru í stöðu eins og ég leita allra leiða til að fá hærra verð fyrir vöruna þannig að bændur geti lifað af sínum búskap.“

- Hvaða verð gætum við farið að horfa upp á?

„Það er alltof snemmt að segja til um það. Þegar við erum í útflutningi þurfum við að horfa til gengisþróunar sem lítið er hægt að stóla á hér á landi. Gengisþróunin vinnur ekki með okkur á milli ára. Evran var í 180 krónum fyrir ári en er nú rúmlega 150 krónur.“

Ágúst bætir því svo aðspurður við að aukin eftirspurn á erlendum mörkuðum og verðhækkun sem af henni hlýst hafi vegið upp á móti styrkingu krónunnar.

„Hækkun á heimsmarkaði frá síðustu sláturtíð, sláturtíðinni 2009, vegur upp þennan gengismun sem er orðin eftir að gengið gekk til baka og eitthvað aðeins betur, sýnist mér núna.“

Ágúst Andrésson.
Ágúst Andrésson.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert