Skuldaúrvinnsla hefur gengið of hægt

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir skuldaúrvinnslu heimila og fyrirtækja í landinu hafa gengið of hægt. „Það er vaxandi óþolinmæði ríkjandi í garð þess. Það á sér vissulega skýringar eins og þær að óvissan um gjaldeyris- og myntkörfulánin hefur tafið fyrir.“

Hann segir að vissar hindranir komi jafnframt upp, t.d. í dómaniðurstöðum. „Þessu þarf að ryðja úr vegi og vonandi geta nú a.m.k. gjaldeyris- og myntkörfulánamálin komist á hreint. Þar er þá eytt óvissu á stóru sviði. Við vitum að þau lán hafa verið stór hluti vandans hjá mjög mörgum, t.d. bílalánin.“

Mikilvægt sé að fara yfir allar tillögur sem eru lagðar fram, með tvennt að leiðarljósi. Í fyrsta lagi hversu skilvirkar þær séu og í öðru lagi hversu kostnaðarsamar þær séu, t.d. hvar lendi sá kostnaður.

„Það þarf að setja þessi mál í algeran forgang, ekki síður skuldaúrvinnslu fyrirtækja en heimila, vegna þess að ég er þeirrar skoðunar að það tefji mjög efnahagsbatann að allt of hægt hafi gengið að vinna úr skuldum lífvænlegra rekstrarfélaga. Þannig að þau komist út í lífið og geti farið að fjárfesta og ráða fólk o.s.frv.,“ segir Steingrímur.

Varðandi mótmæli gærdagsins segir hann: „Ég held að það séu fólgin sterk skilaboð í þessum mótmælum og þessari stemningu í samfélaginu til okkar allra. Það beinist að þinginu, að ríkisstjórn að sjálfsögðu og stjórnmálahefðum hér. Þetta höfum við nú sjálf viðurkennt,“ segir Steingrímur.

„Það þurfum við að taka til okkar og nálgast það af auðmýkt þau skilaboð sem við erum þarna að fá.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert