Fær 150 þúsund en kröfu um 6,6 milljónir hafnað

Þróunarfélag Austurlands hefur verið dæmt til að greiða fyrrverandi framkvæmdastjóra um 150 þúsund krónur í orlof. Framkvæmdastjórinn taldi sig eiga tæplega 6,6 milljónir inni hjá félaginu.

Framkvæmdastjórinn sagði upp starfi í október í fyrra í kjölfar fréttaumfjöllunar um störf hans á öðrum vettvangi. Hann var ráðinn til starfa árið 2004 og stjórnarformaður gerði nýjan ráðningasamning við hann árið 2007, en sá samningur var aldrei borinn undir stjórn félagsins.

Framkvæmdastjóranum voru greidd laun í þrjá mánuði eftir að hann hætti, en hann taldi að hann ætti að fá greidd laun í fimm mánuði auk orlofs fyrir 60 daga og kostnaðar við námskeið. Kröfur sínar byggði hann á samningnum frá árinu 2007.

Dómari við Héraðsdóm Austurlands féllst ekki á þessar kröfur og lagði upphaflegan ráðningasamning til grundvallar ákvörðun sinni. Stjórnarformanni hefði borið að bera samninginn frá 2007 undir stjórn til að hann öðlaðist gildi. Framkvæmdastjórinn fær hins vegar greitt orlof í fimm daga samkvæmt dómnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert