Spurðu hvort listinn yrði birtur

Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson voru í forystu fyrir ríkisstjórn …
Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson voru í forystu fyrir ríkisstjórn Íslands á þessum tíma.

Íslensk stjórnvöld höfðu ekki fengið upplýsingar um hvernig bandarísk stjórnvöld ætluðu sér að nota lista yfir þjóðir sem styddu árás Bandaríkjamanna og Nató í Írak áður en hann var lesinn upp á CNN 18. mars. 2003. Íslensk stjórnvöld spurðu bandarísk stjórnvöld hvernig þau ætluðu að nota listann.

Þetta kemur fram í minnisblaði frá alþjóðaskrifstofu utanríkisráðuneytisins um það leyti sem innrás var gerð í Írak. Utanríkisráðuneytið birti í dag skjöl sem varða aðdraganda innrásarinnar í Írak í mars árið 2003. 

„Listi yfir þau 30 ríki sem styðja Bandaríkin og Bretland var lesinn upp í fréttum á CNN sjónvarpsstöðinni kl. 18:30 (ísl. tíma) í gær (18. mars). Þá höfðu, þrátt fyrir beiðni íslenskra stjórnvalda, ekki borist upplýsingar frá bandarískum stjórnvöldum um það hvernig þau hygðust nota listann eða hvenær og með hvaða hætti hann yrði gerður opinber. Enn vantar upplýsingar frá bandarískum stjórnvöldum hvað felst í því að vera á þessum 30 ríkja lista. Fátt hefur verið um svör í þeim efnum og virðist sem það sé bandarískum stjórnvöldum ekki fullljóst sjálfum. Höfðu fulltrúar ráðuneytisins m.a. spurt fulltrúa BNA sendiráðsins fyrr þann sama dag hvort Íslendingar gætu átt von á því, öllum á óvörum, að listinn yrði birtur á CNN eða öðrum fjölmiðli,“ segir í minnisblaðinu

Ráðuneytið hefur á grundvelli upplýsingalaga farið yfir þau skjöl sem það býr yfir varðandi aðdragenda innrásarinnar í Írak. Skjölin eru 92 talsins, samtals 399 blaðsíður. Í samræmi við upplýsingalög er aðgangur að 67 skjölum heimilaður og hefur fréttamiðlunum þegar verið veittur aðgangur að þeim. Önnur skjöl eru undanþegin aðgangi þar sem þau varða samskipti við önnur ríki  eða fjölþjóðastofnanir eða eru vinnuskjöl. 

Skjölin fjalla um aðdraganda þess að Íslendingar lýstu stuðningi við innrás í Írak. Þar er m.a. sagt frá fundum og samtölum starfsmanna utanríkisþjónustunnar við erlenda embættismenn og ábendingar um umfjöllun erlendra fjölmiðla í aðdraganda Íraksstríðsins.

Skjöl um Írak

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert