Sérstaða MR í hættu

Stúdentar úr Menntaskólanum í Reykjavík.
Stúdentar úr Menntaskólanum í Reykjavík. Eyþór Árnason

„Sérstaða Menntaskólans í Reykjavík er í hættu vegna fyrirsjáanlegs niðurskurðar á sérhæfðum námsbrautum á efri stigum,“ segja kennarar skólans í ályktun sem þeir samþykktu í dag. Þeir benda á að útgjöld á hvern nemanda hafi lækkað að raunvirði í góðærinu 2006-2007.

Félag kennara í Menntaskólanum í Reykjavík samþykktu svohljóðandi ályktun í dag:

„Félag kennara í Menntaskólanum í Reykjavík lýsir yfir áhyggjum af fyrirhuguðum niðurskurði í fjárlagafrumvarpi og bendir á að á krepputímum sé brýnt að styðja dyggilega við menntun ungmenna en framtíð landsins verður í þeirra höndum.

    Á tímum „góðærisins“ naut framhaldsskólinn ekki aukinna fjárframlaga nema til að mæta fjölgun nemenda. Þannig lækkuðu útgjöld á hvern nemanda að raunvirði á árunum 2006-7. Útgjöld á hvern nemenda á Íslandi (sem hlutfall af vergri landsframleiðslu) var á árinu 2007 um 20% undir meðaltali OECD-ríkja. Kennurum er nú ætlað að halda uppi sömu gæðum – með miklu stærri nemendahópa – um leið og kjör þeirra hafa rýrnað og fjárframlög hafa dregist saman ár frá ári. Tvö undanfarin ár hefur verið skorið niður og hagrætt á framhaldsskólastigi. Nú er svo komið að ósýnt er að skólar geti öllu lengur sinnt lögbundnu hlutverki sínu með áframhaldandi niðurskurði. Auk þess er með öllu ólíðandi að það verði gert með inngripi í kjarasamninga kennara.

    Sérstaða Menntaskólans í Reykjavík er í hættu vegna fyrirsjáanlegs niðurskurðar á sérhæfðum námsbrautum á efri stigum. Litlir námshópar, s.s. í fornmálum og eðlis- og stærðfræði, kunna að verða felldir niður. Bent skal á að ódýrustu ársnemendur landsins eru í skólanum. Eftir niðurskurð tveggja ára hefur kostnaður á hvern nemanda lækkað niður í 539 þúsund á þessu ári en skv. fjárlagafrumvarpi á kostnaður að fara niður í 512 þúsund. Þetta er ekki lengur gerlegt eins og hver maður sér.“


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert