Skulda Íbúðalánasjóði 44 milljarða

mbl.is/Ásdís

Sveitarfélögin skulda Íbúðalánasjóði um 44 milljarða króna vegna kaupa þeirra á 3863 eignum til félagslegra nota. Reykjavík skuldar tæplega helming þessarar upphæðar, eða rúmar 20 milljónir.

Þetta kemur fram í svari félagsmálaráðherra við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins á Alþingi.

Af þessari 44 milljarða króna skuld 7,5 milljónir í vanskilum, þar af 6,2 milljónir í Suðurkjördæmi og 1,3 milljónir í Norðvesturkjördæmi.   Í Vesturbyggð voru afskrifaðar skuldir að fjárhæð tæpar 84 milljónir árið 2002. Árið 2003 voru afskrifaðar 13 milljónir hjá Ísafjarðarbæ og aftur rúmar 25 milljónir í árslok 2006. Árið 2005 voru afskrifaðar tæpar 37 milljónir hjá Hríseyjarhreppi þegar það sveitarfélag var sameinað Akureyrarkaupstað.

Árið 2009 voru afskrifaðar 73 milljónir hjá Bolungarvíkurkaupstað, samkvæmt ósk eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga. Um var að ræða helming skulda sveitarfélagsins við sjóðinn en þær nema alls 146 milljónum. Stjórn sjóðsins féllst á að afskrifa 73 milljónir og að 73 milljónir yrðu „frystar“ í eitt ár. Að því tímabili loknu yrði málið tekið til endurskoðunar í samráði við eftirlitsnefndina og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið. Nú liggur fyrir ósk frá Bolungarvíkurkaupstað um að ljúka afskrift á þeirri fjárhæð sem eftir stendur, alls 81 milljón króna. Niðurstaða í því máli liggur ekki fyrir.

Fram kemur í svarinu, að skuldir sveitarfélaganna eru afskrifaðar eftir að eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaganna hefur óskað eftir því vegna erfiðrar fjárhagsstöðu viðkomandi sveitarfélags og með samþykki ráðuneytisins eins og lög og reglugerðir kveða á um.

Svarið í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert