Stefna að niðurstöðu á morgun

Fulltrúar stjórnar og stjórnarandstöðunnar á fundi.
Fulltrúar stjórnar og stjórnarandstöðunnar á fundi. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Það kom lítið fram á þessum fundi,“ segir Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins en forystumenn stjórnarandstöðuflokkanna var í morgun boðuð á fund með 5 ráðherrum þar sem farið var yfir stöðuna í viðræðum um aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna. Stefnt sé að niðurstöðu á morgun.

Ólöf segir að á fundinum hafi ráðherrar gert grein fyrir viðræðunum sem eru í gangi við fjármálafyrirtæki og lífeyrissjóði. „Það er ekki komin niðurstaða en mér er sagt að hún verði jafnvel tilbúin á morgun,“ segir hún.

Fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna fengu ekki í hendur lista yfir mögulegar aðgerðir sem rætt er um. „Við fengum bara yfirlit yfir að þetta væri ennþá í gangi og menn væru að reyna að ná einhverri niðurstöðu en hún væri ekki fengin. Þetta væri allt saman mjög erfitt. Tíminn er að renna út, við höfum ekki endalausan tíma í þessa bið,“ segir Ólöf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert