Íslenska dómskerfið ræður við umfangsmikil mál

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Brynjar Gauti

Ásgeir Thoroddsen, lögmaður, segir í eiðsvarinni yfirlýsingu, sem lögð hefur verið fyrir hæstarétt Manhattan í New York, að íslenska dómskerfið sé vel hæft til að fjalla um mál á borð við skaðabótamálið, sem slitastjórn Glitnis hefur höfðað í New York gegn sjö einstaklingum.

Í yfirlýsingunni, sem lögð er fram til að styðja frávísunarkröfu þeirra sem málið beinist gegn, andmælir Ásgeir því áliti, sem kom fram í yfirlýsingu frá Þórði S. Gunnarssyni, lögmanni, og slitastjórnin lagði fyrir réttinn, að íslenska dómskerfið væri illa í stakk búið til að fást við mál eins og þetta vegna eðlis málsins og umfangs.

Yfirlýsing Ásgeirs er gefin að beiðni þeirra, sem skaðabótakrafan beinist gegn. Svipuð yfirlýsing frá Brynjari Níelssyni, lögmanni, var dregin til baka fyrr í nóvember eftir að slitastjórn Glitnis benti á, að þar kæmi ekki fram, að Brynjar  starfaði fyrir slitastjórnina fram á mitt þetta ár.

Ásgeir  segir m.a. í yfirlýsingu sinni, að íslenskir dómarar, bæði héraðsdómarar og hæstaréttardómarar, séu vel hæfir til að fjalla um flókin og erfið mál enda meðal þeirra fremstu í Evrópu þegar miðað sé við menntun, reynslu og hæfni.

Þá segir Ásgeir, að þótt málafjöldi hafi vissulega aukist í íslenska dómskerfinu og muni aukast á næstunni, hafi íslensk stjórnvöld brugðist við með því að fjölga dómurum. Málsmeðferð fyrir íslenskum dómstólum taki jafnan stuttan tíma, ef miðað er við önnur Evrópuríki.   

Ásgeir bendir einnig á, að engin vafi leiki á mikilvægi þeirra mála, sem tengjast falli Glitnis, fyrir íslensku þjóðina og nauðsyn þess að auka traust á íslenskum stofnunum á ný. Þeim mun meiri ástæða sé til þess, að íslenskir dómstólar fjalli um deilur, sem koma upp á Íslandi milli íslenskra aðila um íslensk viðskipti.   

Yfirlýsing Ásgeirs Thoroddsen

Ásgeir Thoroddsen.
Ásgeir Thoroddsen.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert