Góður árangur í fjármálum borgarinnar

Á Reykjavíkurtjörn.
Á Reykjavíkurtjörn. mbl.is/Golli

Rekstrarniðurstaða Reykjavíkurborgar fyrir fyrstu níu mánuði ársins, sem lögð var fram í borgarráði, í dag staðfestir góðan árangur í fjármálum og rekstri borgarinnar á undanförnum misserum. Þetta segir í tilkynningu frá borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins.

Fram kemur að þannig sýni níu mánaða uppgjörið að hagnaður af rekstri samstæðunnar sé rúmlega 16 milljarðar, auk þess sem flestar áætlanir um afkomu hafi skilað betri niðurstöðu.  

„Árshlutauppgjörið staðfestir þann góða árangur sem náðist í fjármálum borgarinnar með samstilltu átaki borgarfulltrúa, starfsmanna og íbúa með nýjum vinnubrögðum í kjölfar efnahagshrunsins 2008.  Uppgjörið er einnig staðfesting á því hversu óþarft og ósanngjarnt það er að hækka alla skatta og öll gjöld á borgarbúa við núverandi aðstæður.  Þeim áformum höfum við borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ítrekað mótmælt harðlega, bæði með því að benda á þessa sterku fjárhagsstöðu og einnig með því að benda á aðrar færar hagræðingaraðgerðir.  Meirihlutinn í Reykjavík kýs hins vegar að fara gamaldags leið kerfisins á kostnað fólksins og sú niðurstaða sem nú liggur fyrir staðfestir enn og aftur að sú leið er óþörf og ósanngjörn gagnvart borgarbúum sem eiga að njóta þessa góða árangur,“ segir Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn og forseti borgarstjórnar, í tilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert