Afhjúpar tilgangsleysi sendiráða

Frá fundinum í dag. Ólafur Harðarson, prófessor, er í pontu.
Frá fundinum í dag. Ólafur Harðarson, prófessor, er í pontu. mbl.is/Ernir

Birting skjala WikeLeaks afhjúpar innihaldsleysi diplómatískrar samskipta. Ísland á að hætta að senda hóp sendiráðsmanna til útlanda til þess m.a. að tala við útlenda embættismenn.

Þetta sagði Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri, á fundi Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála þar sem fjallað var um skýrslur erlendra sendimanna og hversu traust heimild þau væru um íslensk stjórnmál. Stundum hefðu starfað við sendiráð hér á landi hæfileikamenn en meirihluti þeirra hefðu ekki verið það og ekki haft áhuga á að setja sig inn í íslenskt samfélag.

Styrmir sagði um trúverðugleika þessara skjala, að þau endurspegluðu að miklu leyti dómgreind og mat þeirra manna sem skrifuðu skýrslurnar. Hann sagði að skjölin, sem WikiLeaks hefði birt, afhjúpuðu innihaldsleysi diplómatískra samskipta.  Það væri algerlega tilgangslaust fyrir litla þjóð eins og Ísland að senda hóp embættismanna til útlanda til að búa þar í dýrum húsum og aka á fínum bílum m.a. í þeim tilgangi að þeir gætu talað við erlenda embættismenn. Þetta hefði kannski verið eðlilegt vinnulag fyrir 100 árum en væri það ekki í dag.

Kristinn Hrafnsson, talsmaður WikiLeaks, tók undir með Styrmi og sagði að sér hefði fundist mjög stór hluti þessara skýrslna frá bandarísku utanríkisþjónustunni ekki merkilegur.

Kristinn sagðist hins vegar ekki geta verið sammála Styrmi um að það væri vont að embættismenn eða stjórnmálamenn væru mikið í útlöndum og menguðust þar af útlendum viðhorfum. Það væri einmitt ókostur íslenskra stjórnmálamanna hvað þeir væru heimóttarlegir.

Jón Ólafsson, prófessor í Bifröst, fjallaði um það sem gerðist fyrir um 20 árum þegar skjalasöfn í Sovétríkjunum opnuðust. Hann sagði að þá hefði áhugi manna beinst að þrennu. Í fyrsta lagi peningagreiðslum frá Sovétríkjunum til kommúnistaflokka á Vesturlöndum. Í öðru lagi hverjir hefðu hitt hvern og í þriðja lagi hvaða álit þeir, sem skrifuðu þessar skýrslur, hefðu á Íslendingum og íslenskum stjórnmálamönnum. Þegar WikiLeaks birti skjölin frá bandarísku utanríkisþjónustunni hefði athygli manna einmitt beinst að viðhorfum bandarískrar sendiráðsmanna til Íslands og íslenskra stjórnmálamanna.

Reykjavíkurpóstar WikiLeaks

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert