Byggja þarf upp endurhæfingarkerfi

Guðbjartur Hannesson.
Guðbjartur Hannesson. mbl.is/Ómar

Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra, sagði í dag að  eitt af fjölmörgum verkefnum sem bíða velferðarráðuneytisins væri, að byggja upp heildstætt kerfi í þágu þeirra sem þurfa á endurhæfingu að halda.

„Við eigum öflugar stofnanir sem sinna endurhæfingu þar sem mikil þekking hefur byggst upp í gegnum árin. Margir aðilar koma að endurhæfingarstarfi og gera það vel, en meginvandinn hefur falist í múrum milli kerfa, togstreitu og skorti á samfelldri þjónustu við notendur. Nú höfum við tækifæri til að brjóta niður múrana og byggja up heildstætt kerfi í þágu þeirra sem þurfa á endurhæfingu að halda, hvaðaástæður sem liggja að baki. Þetta er eitt af fjölmörgum verkefnum sem bíða velferðarráðuneytisins," sagði Guðbjartur þegar hann ávarpaði málþing Félags fagfólks um endurhæfingu í dag.

Hann sagði, að á næstu mánuðum væru samningar lausir við stofnanir sem sinna endurhæfingu á sviði heilbrigðisþjónustu og starfsendurhæfingar.

„Í undirbúningi þeirra samninga þurfum við að setja okkur markmið um þjónustu sem við munum byggja samningagerð á. Þetta er umfangsmikil vinna sem við verðum að vanda til. Sem aldrei fyrr verðum við að vera viss um að opinbert fé skili því sem að er stefnt."

Ávarp velferðarráðherra

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert