Íhaldið er „skíthrætt“

Frá umræðu á Alþingi um skýrslu forsætisráðherra um stjórnlagaþingskosningu nú …
Frá umræðu á Alþingi um skýrslu forsætisráðherra um stjórnlagaþingskosningu nú síðdegis. mbl.is/Ernir

Íhaldið er „skíthrætt“ við að komið verði inn í stjórnarskrá ákvæði um að auðlindirnar verði í þjóðareign, og mörg fleiri atriði sem ekki hafa komist á vegna andstöðu þess. Þetta sagði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, í lokaræðu á Alþingi vegna ógildingar Hæstaréttar á kosningum til stjórnlagaþings.

Jóhanna sagði dapurlegt að hlusta á það hve hlakkað hefur í íhaldinu við að Hæstiréttur hefur ógilt kosningarnar til stjórnlagaþings.

Dapurlegt að talað sé um tilraunastarfsemi með stjórnarskrána. Stjórnarskrá sett á laggirnar vegna þess að þingið hafi gefist upp við að breyta stjórnarskránni. Þingið sem hafi áratugum saman, oft með íhaldið í forystu, gefist upp á að breyta stjórnarskránni. 

Þá sagði Jóhanna fráleitt að vísa ábyrgð á málinu á hendur forsætisráðherra og ríkisstjórninni eins og stjórnarandstaðan er að reyna að gera. Athugasemdir Hæstaréttar lúti ekki ekki að upphaflegu frumvarpi ríkisstjórnarinnar, og þeir sem gagnrýndi framkvæmdina, hafi einnig átt sæti í þeirri nefnd sem fjallaði um stjórnlagaþingið. Hún spurði hvers vegna þeir hafi ekki bent á gallana og hvers vegna þeir hafi ekki verið lagfærðir.

Jóhanna skoraði á þingmenn að koma sér saman og finna leiðir til þess að koma stjórnlagaþinginu á, til þess að það verði ekki tekið af þjóðinni. Og hún bað íhaldið að manna sig með hluta stjórnarandstöðunnar og færa þjóðinni það stjórnlagaþing sem þjóðin hefur kallað eftir. Hún bað um að ekki yrði gefist upp þetta verk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert