Vegur að ritstjórnarlegu sjálfstæði RÚV

mbl.is/Ómar

Breytingar sem stjórnvöld hafa gert fjármögnun Ríkisútvarpsins vega að ritstjórnarlegu sjálfstæði stofnunarinnar. Þessi fjármögnun er tekin sem víti til varnaðar í evrópskri umræðu um fjármögnun almannaþjónustuútvarps enda gangi hún þvert gegn allri nútímalegri og lýðræðislegri hugsun um sjálfstæði almannaþjónustumiðla gagnvart stjórnmálamönnum.

Aðalfundur RÚV var haldinn í dag. Stofnunin var rekin með 205,6 milljón króna hagnaði á þessu ári sem er 476,8 milljóna bati frá árinu á undan. Þetta er í fyrsta skipti sem RÚV skilar hagnaði síðan stofnað var opinbert hlutafélag um rekstur þess. Eigið fé RÚV er 720,6 milljónir og er eiginfjárhlutfall 13,1%.

Samkvæmt nýsamþykktum fjárlögum fyrir árið 2011 er gert ráð fyrir 255 milljón króna niðurskurði á tekjum Ríkisútvarpsins af almannaþjónustu. Þetta kemur til viðbótar 60 milljón króna lækkun tekna af almannaþjónustu árið 2009, 357 milljón króna skerðingu þeirra árið 2010 og hækkun tryggingagjalds um 63 milljónir. Þessar aðgerðir stjórnvalda skerða því þjónustutekjur RÚV til framtíðar um 735 milljónir króna á ári, að því er fram kemur í ársskýrslu RÚV.

„Helsta hættan sem steðjar að RÚV um þessar mundir er þó sú staðreynd að stjórnvöld hafa í raun sett félagið á fjárlög eins og um væri að ræða ríkisstofnun en ekki opinbert hlutafélag sem RÚV þó er samkvæmt lögum. Þrátt fyrir að útvarpsgjaldið hafi samkvæmt lögum ekki verið ætlað til annars en að fjármagna starfsemi RÚV hafi stjórnvöld tekið þá ákvörðun að líta á það sem hvert annað gjald sem rennur í ríkissjóð. Hluti þess er síðan tekinn til annarra þarfa en reksturs RÚV. Þetta er afskræming á rekstrarformi RÚV og til þess fallið að skerða fjárhagslegt - og þar með ritstjórnarlegt - sjálfstæði félagsins gagnvart stjórnvöldum á hverjum tíma. Þessi fjármögnun er tekin sem víti til varnaðar í evrópskri umræðu um fjármögnun almannaþjónustuútvarps enda gengur hún þvert gegn allri nútímalegri og lýðræðislegri hugsun um sjálfstæði almannaþjónustumiðla gagnvart stjórnmálamönnum. Afar brýnt er að snúa við á þessari óheillabraut,“ segir í árskýrslu RÚV.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert