Sagði Besta flokkinn líkjast lítilli strákaklíku

Jón Gnarr og Hanna Birna Kristjánsdóttir.
Jón Gnarr og Hanna Birna Kristjánsdóttir. mbl.is/Kristinn

Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokks í borgarstjórn Reykjavíkur, sagði á fundi borgarstjórnar í dag að Besti flokkurinn vinni eins og lítil strákaklíka og telji sig ekki þurfa að hafa eðlilegt samráð við aðra. 

Samkvæmt upplýsingum frá Sjálfstæðisflokknum urðu nokkur orðaskipti milli Hönnu Birnu og Jóns Gnarr, borgarstjóra, í umræðu um  málefni tónlistarskóla eftir að Jón sagði að Besti flokkurinn hefði enga stefnu og  væri ekki flokkur, hefði enga starfsemi, engar nefndir og engin ráð full af fólki til að móta einhverja stefnu. 

Hanna Birna sagði þá, að aðgerðir væru stefnur og flokkurinn gætu ekki skýlt sér á bak við það og þannig losnað við að svara fyrir eigin aðgerðir. Lýsing Jóns væri ólýðræðisleg  og  það væri óeðlilegt, að borgarstjóri teldi þetta sérstaklega farsælt fyrirkomulag.  Svo virtist af lýsingum hans að það væru bara nokkrir vinir hans sem stjórnuðu þessu öllu og teldu sig engu þurfa að svara nema kannski gagnvart hver öðrum. Þessar aðferðirnar boði ekkert annað en afturhvarf til löngu úreltra leiða.  

Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, sagði einnig í umræðunni að Besti flokkurinn væri gamaldags flokkur, raunar meira gamaldags en Framsóknarflokkurinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert