„Sem betur fer er málfrelsi á Íslandi“

„Ég var að vísa til tiltekins ræðubúts forsætisráðherra. Sem betur fer er málfrelsi á Íslandi. Jafnvel þótt maður sé í ríkisstjórn,“ segir Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra spurður út í orð þingmanna Samfylkingarinnar, sem gagnrýna Ögmund fyrir að saka forsætisráðherra um dómgreindarleysi.

Ummæli Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra að órólega deildin svokallaða sé að „leika sér að eldinum“ með andstöðu við stjórnina í mikilvægum málum bera hvorki vott um góða dómgreind né sanngirni, sagði Ögmundur í samtali við Morgunblaðið í gær.

Jóhanna lét þessi orð falla á flokksstjórnarfundi Samfylkingar á laugardag og sagði Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, í kjölfarið að stjórnarliðar ættu ekki að „hræra í innyflum“ hver annars.

Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sendi Ögmundi tóninn á vef sínum í gær. Sigmundur sagði að Ögmundur hafi í viðtali við Morgunblaðið kveðið upp úr um að forsætisráðherra hefði skort dómgreind, og spurði hvort ráðherra gæti gengið mikið lengra í gagnrýni á forseta eigin ríkisstjórnar. „Ég held ekki,“ sagði Sigmundur Ernir. Sjá frétt á vef mbl.is.

Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, gerði jafnframt að umræðuefni á bloggvef sínum í gær þau ummæli Ögmundar að hluti ræðu Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, á fundi Samfylkingarinnar á laugardag bæri hvorki vott um sanngirni né góða dómgreind.

„Á einhverjum tíma – í einhverju siðuðu samfélagi þar sem orð hefðu merkingu – yrði ráðherrann inntur nánar eftir því hvað hann hygðist fyrir í framhaldi af öðrum eins ummælum. Ætlaði hann að starfa áfram undir verkstjórn þess sama forsætisráðherra hvers dómgreindarbresti hann hefði lýst? Ef svarið væri já – ætlaði hann þá að draga orð sín til baka? Ef svarið við síðari spurningunni væri nei – hvernig ætlaði ráðherrann þá að vera maður orða sinna?" spyr Ólína. Sjá frétt um málið á mbl.is.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert