Margir dómendur lýsa yfir vanhæfi

Það var niðurstaða Alþingis, að höfða bæri mál gegn Geir …
Það var niðurstaða Alþingis, að höfða bæri mál gegn Geir H. Haarde. mbl.is/Kristinn

Ekki liggur endanlega fyrir hverjir skipa landsdóm sem dæma mun í máli Alþingis gegn Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra.

Það mun væntanlega skýrast á fyrsta fundi dómsins sem boðað er til á morgun vegna áfrýjunar lögmanns Geirs á úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur um heimild til að krefjast frávísunar málsins.

Í landsdómi eiga sæti fimmtán dómendur. Það eru þeir fimm dómarar Hæstaréttar sem lengst hafa setið, dómstjórinn í Reykjavík, prófessorinn í stjórnskipunarrétti við Háskóla Íslands og átta menn kosnir af Alþingi.

Hæstaréttardómararnir eru Ingibjörg Benediktsdóttir, forseti Hæstaréttar, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson. Viðar Már hefur setið styst dómara réttarins en tekur sæti í landsdómi vegna þess að Árni Kolbeinsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson víkja sæti.

Helgi I. Jónsson er dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur. Benedikt Bogason, dósent við lagadeild HÍ, tekur sæti sem kjörinn varamaður Bjargar Thorarensen prófessors.

Af þeim sem Alþingi kaus í landsdóm taka sæti Linda Rós Michaelsdóttir kennari, Sigrún Magnúsdóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hæstaréttarlögmaður, Fannar Jónasson viðskiptafræðingur, Hlöðver Kjartansson hæstaréttarlögmaður og Brynhildur G. Flóvenz, dósent við lagadeild Háskóla Íslands.

Ekki kjörgeng vegna aldurs

Ekki er endanlega ljóst með tvö síðustu sætin. Jóna Valgerður Kristjánsdóttir var kjörin í landsdóm en hún er orðin sjötug og því ekki lengur kjörgeng, samkvæmt sextíu ára gömlum lögum um landsdóm. Lára V. Júlíusdóttir, fyrsti varamaður hennar, er talin vanhæf og Sveinbjörn Hafliðason er kominn yfir aldursmörkin. Er því líklegast að Magnús Reynir Guðmundsson, fyrrverandi bæjarfulltrúi á Ísafirði, taki sæti. Annar aðalmaður, Dögg Pálsdóttir hrl., hefur vakið athygli forseta landsdóms á hugsanlegu vanhæfi sínu vegna þess að hún hefur gegnt varaþingmannsstörfum í fjarveru Geirs H. Haarde. Ef hún víkur sæti tekur Ástríður Grímsdóttir sýslumaður væntanlega sæti hennar.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert