Farið á svig við dóm Hæstaréttar

Róbert R. Spanó.
Róbert R. Spanó. mbl.is/Ásdís

„Niðurstaða Hæstaréttar verður ekki skilin með öðrum hætti en svo að kosningin til stjórnlagaþings hafi verið ótraust, að hún hafi byggst á annmörkum á löggjöfinni um stjórnlagaþingið, þ.e.a.s. að ekki hafi verið fylgt þeim efnisreglum sem gilda um kosningu til stjórnlagaþings.“

Þetta segir Róbert Spanó, prófessor og forseti lagadeildar Háskóla Íslands, í Morgunblaðinu í dag spurður um það meirihlutaálit samráðsnefndar um stjórnlagaþing að Alþingi skipi stjórnlagaráð með sömu einstaklingum og náðu bestum árangri í stjórnlagaþingskjörinu.

„Það er ekki hægt að ganga út frá því með réttu að vera þeirra 25 á lista yfir þá sem urðu hlutskarpastir í stjórnlagaþingskosningunum sé byggð á traustum forsendum. Að mínu áliti verður niðurstaða Hæstaréttar ekki skilin með öðrum hætti en svo að þeir annmarkar sem Hæstiréttur taldi vera á stjórnlagaþingskosningunni, sem í tveimur tilvikum voru taldir verulegir, hafi í eðli sínu verið til þess fallnir að hafa áhrif á úrslit kosninganna.“Ragnhildur Helgadóttir, prófessor í lögfræði við Háskólann í Reykjavík, vísar einnig til Hæstaréttar. „Það er í sjálfu sér heimilt að breyta lögunum um stjórnlagaþing og ákveða að það verði skipað með einhverjum öðrum hætti en með kosningu. Mér finnst þetta hins vegar óheppilegt. Hæstiréttur tók, hvort sem menn eru sammála því eða ósammála, ákvörðun um að ógilda þessar kosningar, enda væru ágallarnir það alvarlegir að hann ætti ekki annarra kosta völ. Mér finnst þessi tillaga óheppileg, vegna þess að hún felur í sér að Alþingi setur sitt mat á því hvort það átti að ógilda kosninguna á grundvelli þessara annmarka í stað mats Hæstaréttar.“
Ragnhildur Helgadóttir.
Ragnhildur Helgadóttir.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert