Fer í slipp í Danmörku

Goðafoss við akkeri við eyjuna Styre. Myndin er af vef …
Goðafoss við akkeri við eyjuna Styre. Myndin er af vef norsku siglingastofnunarinnar.

Ákveðið hefur verið að Goðafoss fari í slipp til Danmerkur. Ólafur William Hand, upplýsingafulltrúi Eimskips, segir að skipið muni sigla fyrir eigin vélarafli í fylgd lóðsbáta. Vélar skipsins verði gangsettar í dag.

Ólafur sagði að búið væri að fjarlægja alla gáma úr skipinu og þeir verði fluttir til Íslands mjög fljótlega. „Það hefur verið ákveðið að skipið fari í slipp í Danmörku. Það mun sigla þangað fyrir eigin vélarafli í fylgd lóðbáta. Skipið leggur af stað í dag eða á morgun. Áætlað er að siglingin taki um sólarhring,“ sagði Ólafur.

Ólafur sagði reiknað með að viðgerð á skipinu tæki um tvær vikur. Menn höfðu áhyggjur af því að vindingur hefði komið á skipið við strandið og að öxull skipsins hefði skemmst, en Ólafur sagði að engar slíkar skemmdir væru á skipinu. Goðafoss liggur núna við akkeri stutt frá þeim stað þar sem skipið strandaði. Búið er að dæla olíu úr skipinu, en Ólafur segir að í skipinu sé olía sem dugi fyrir siglingu til Danmörku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert