Kafarar fundu högg á botni Kleifarvatns

Kafararnir þrír frá vinstri: Kristján Arnarsson, Pétur Yngi Yamagata, Friðbjörn …
Kafararnir þrír frá vinstri: Kristján Arnarsson, Pétur Yngi Yamagata, Friðbjörn Orri Ketilsson.

Þrír kafarar voru við köfun í norðaustur hluta Kleifarvatns í morgun og voru á rúmlega 20 metra dýpi þegar skjálftahrina reið yfir svæðið. Þeir fundu fyrir miklu höggi og heyrðu háværa hvelli. Að sögn Friðbjörns Orra Ketilssonar, eins kafaranna, var höggið mikið.

„Það var engu líkara en að gríðarlega öflug sprengja hefði sprungið stutt frá okkur. Svo öflugt var höggið. Okkur leist fyrst ekki á blikuna enda á talsverðu dýpi og héldum að hugsanlega hefði eitthvað gefið sig í búnaði hjá okkur. Við sáum þó fljótt að svo var ekki þegar fleiri högg fylgdu í kjölfarið. Þetta var mikil upplifun.“

Að sögn Friðbjörns hafa mennirnir mikla reynslu af köfun í Kleifarvatni og fara reglulega og kanna háhitasvæði og hveri, í suðurhluta vatnsins, sem breytast ört vegna jarðhræringa á svæðinu. Oft heyrist þar lágar drunur frá gufuþenslu og öðru en ekkert hafi áður jafnast á við það högg sem þeir fundu fyrir í morgun. Friðbjörn segir einnig að þeir hafi ekki áður orðið varir við höggbylgjur og drunur í norðaustur hluta vatnsins.

Að sögn Friðbjörns voru aðstæður til köfunar í morgun hinar bestu. Vatnshiti var -1°C og köfunarskyggni um 5-10 metrar.

Kafararnir á leið niður að botni Kleifarvatns.
Kafararnir á leið niður að botni Kleifarvatns. mbl.is/Friðbjörn Orri
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert