Vilja lækka eldsneytisskatta

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins boða nýtt frumvarp á Alþingi þar sem lagt verður til að föst gjöld á eldsneyti verði lækkuð.

Í tilkynningu frá flokknum segir, að tekjur ríkisins af bensín- og olíugjöldum séu orðnar óeðlilega háar. Ástæðan sé hækkandi eldsneytisverð, sem skili síhækkandi tekjum af virðisaukaskatti í ríkissjóð.

Nú kosti bensínlítrinn víðast hvar um 225 krónur og dísilolía 230 krónur. Verðið sé komið langt yfir sársaukamörk, flutningskostnaður kominn upp úr öllu valdi og farinn að hafa áhrif á aðföng, bæði til landsins og út á land.

Það sé því mikið þjóðþrifamál að ná niður bensín- og olíuverði, en skemmst sé að minnast mikilla mótmæla vorið 2008,  þegar bensínlítrinn kostaði í kringum 150 krónur.

Frumvarpið verður lagt fram, þegar þing kemur saman á ný eftir nefndadaga  í næstu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert