19 starfsmenn handteknir

Verið er að rannsaka ætluð brot starfsmanna Byko, Húsasmiðjunnar og Úlfsins gegn banni samkeppnislaga við samráði keppinauta um m.a. verð, gerð tilboða og skiptingu markaða. 19 starfsmenn fyrirtækjanna voru í dag handteknir og færðir til yfirheyrslu vegna málsins.

Í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu og ríkislögreglustjóra segir, að rannsókn lögreglu beinist að ætluðum brotum starfsmanna fyrirtækjanna og grundvallist á kæru Samkeppniseftirlitsins.

Samkvæmt  41. grein samkeppnislaga varði það starfsmenn fyrirtækja sektum eða fangelsi allt að sex árum ef þeir framkvæma, hvetja til eða láta framkvæma samráð milli keppinauta, m.a. um verð.

Samhliða rannsókn lögreglu á ætluðum brotum starfsmanna fyrirtækjanna hefur Samkeppniseftirlitið til rannsóknar hugsanleg brot hlutaðeigandi fyrirtækja á banni við ólögmætu samráði  en slík brot varða fyrirtæki m.a. stjórnvaldssektum. 

Gerðar voru húsleitir hjá fyrirtækjunum þremur í dag og var þar lagt hald á gögn og muni  í þágu rannsóknarinnar. Samhliða húsleitaraðgerðum voru nítján starfsmenn fyrirtækjanna handteknir og færðir til yfirheyrslu. Þeim yfirheyrslum er nú lokið og hlutaðeigandi starfsmenn frjálsir ferða sinna.

Við aðgerðina nutu ríkislögreglustjóri og Samkeppniseftirlitið aðstoðar starfsmanna sérstaks saksóknara, lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og lögreglustjórans á Suðurnesjum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert