Konur með hærri laun en karlar

Rafiðnaðarsambandið segir, að launakannanir hafi ítrekað leitt í ljós, að konur innan sambandsins séu með hærri laun en karlar.

Í svörum Rafiðnaðarsambandsins til háskólanna í Reykjavík og á Bifröst, sem eru að kanna launamun, segir að í árlegri launakönnun sem Capacent gerði meðal rafiðnaðarmanna í september 2010 komu fram m.a. eftirfarandi upplýsingar.
 
Meðalheildarlaun:
Konur 478.061 krónur.
Karlar 461.667 krónur.

Meðal yfirvinnutími kvenkyns rafiðnaðarmanna með sveinspróf eða meira í september var 9  klst en karla 21 klst. Reiknað út frá sama vinnutíma, eru konur með 10,2% hærri heildarlaun en karlar.
 
Meðalregluleg laun
Konur 426.164 krónur
Karlar 371.909 krónur

Konur eru með 14,6% hærri regluleg laun en karlar.
 
Rafiðnaðarsambandið segir, að þessar tölur hafi verið svipaðar niðurstöðum í fyrri könnunum. Þegar kannanirnar hafi verið birtar hafi örfáir karlar krafist þess að settar væru reglur til þess að jafna bil karla við konur, en því hafi algjörlega verið hafnað af hálfu stjórnar sambandsins.
 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert