Enn mikil sýking í síldinni

mynd/Albert Kemp

Nýjar mælingar Hafrannsóknarstofnunar staðfesta niðurstöðu fyrri mælinga um mikla sýkingu í síldarstofninum í Breiðafirði.

Skip stofnunarinnar fóru í rannsóknaleiðangur 21.-25. febrúar sl. til að kanna ástand síldarstofnsins í Breiðafirði. Markmið rannsóknanna var fyrst og fremst að meta og fylgjast með þróun Ichthyophonus sýkingarinnar sem herjað hefur á stofninn frá árinu 2008 og valdið miklum afföllum bæði í ungsíld sem og veiðistofninum. 

 Alls voru tekin sex sýni í leiðangrinum, tvö úr dreifðri síld inni á Grundarfirði, tvö úr torfu inni á Kolgrafarfirði og tvö úr torfum í Hofstaðavogi. Úr hverju togi voru hjörtu 100 sílda rannsökuð. Hlutfall sýktra sílda var svipað í torfunum í Kolgrafarfirði og Hofstaðavogi, 43 og 40%, lægri í Hofstaðavogi. Hins vegar var 80% síldarinnar sem veiddist í Grundarfirði sýkt og hlutfall mjög sýktrar síldar var hátt.

„Þessar rannsóknir nú staðfesta fyrri mælingar um mikla sýkingu í stofninum. Eins og fram hefur komið eru engar vísbendingar um annað en að sýkingin valdi dauða hjá þeirri síld sem greinist með sýkingu. Hinsvegar virðist það taka lengri tíma hér en á öðrum hafsvæðum þar sem faraldur vegna Ichthyophonus hefur greinst í síldarstofnum,“ segir í frétt frá Hafró.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert