Hyggst stefna stjórnendum

Lífeyrissjóður verzlunarmanna er í Húsi verslunarinnar.
Lífeyrissjóður verzlunarmanna er í Húsi verslunarinnar.

Ragnar Þór Ingólfsson, stjórnarmaður í VR, hyggst leggja fram tillögu á ársfundi Lífeyrissjóðs verzlunarmanna á morgun um að stjórnendum sjóðsins verði stefnt fyrir dóm.

„Það er auðvelt að blóta í hljóði og bölva ástandinu í eldhúsinu heima hjá sér. Ég ætla að gera eitthvað í málunum og stefna stjórnendum sjóðsins og krefjast þess að sjóðsfélagar fái að vita hvernig farið er með fjármuni sjóðsins. Stjórnendur sjóðsins hafa hingað til hafnað allri skoðun. Ég skora því á alla sjóðsfélaga sem vilja gera eitthvað í málunum að mæta á fundinn og styðja tillögu mína," segir Ragnar Þór í tilkynningu sem hann hefur sent fjölmiðlum.

Tillögurnar sem Ragnar Þór hyggst leggja fram á ársfundi lífeyrissjóðsins á morgun hljóða eftirfarandi:

„1) Ársfundur Lífeyrissjóðs verslunarmanna 16. mars 2011 samþykkir að lagt skuli fyrir stjórn og framkvæmdastjóra sjóðsins, að upplýsa um alla fjármálagerninga sem gerðir hafa verið í nafni sjóðsins og nema hærri upphæð en kr.150.000.000,- á árunum 2004-2011. Skal rækilegt yfirlit sett saman um þetta og gert sjóðsfélögum aðgengilegt á heimasíðu sjóðsins. Jafnframt skal þeim sjóðsfélögum sem óska nánari upplýsinga um einstaka fjármálagerninga sem eru umfram framangreinda fjárhæð, veittar allar upplýsingar og gögn er að einstökum viðskiptum lúta.

2) Fyrirhuguð er málssókn fyrir dómstólum þar sem leitast verður við að fá skorið úr um persónulega ábyrgð einstakra stjórnarmanna og stjórnenda lífeyrissjóðsins. Aðalfundur Lífeyrissjóðs verslunarmanna 16. mars 2011 samþykkir að kosta málsókn Ragnars Þórs Ingólfssonar sjóðsfélaga í Lífeyrissjóði verslunarmanna á málefnum er varða gjaldmiðlasamninga og lánveitingar lífeyrissjóðsins til tengdra aðila á árunum 2004-2011. Samþykkir ársfundurinn að sjóðurinn greiði málskostnað vegna málsóknar Ragnars Þórs Ingólfssonar, enda skili hann ítarlegu yfirliti um skiptingu kostnaðarins að málarekstri loknum."

Ragnar Þór Ingólfsson
Ragnar Þór Ingólfsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert